148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

störf þingsins.

[15:26]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Veiðigjöldin á yfirstandandi fiskveiðiári hækkuðu um 100%. Hækkunin er þó mest í ýsu, um 127%, og í þorski, 106%. Þessi hækkun sem kom sl. haust er vegna afkomu greinarinnar árið 2015 og hefur verið gagnrýnt að sú aðferð sé notuð að reikna gjaldið út á þennan hátt því að afkomumunurinn á milli ára getur verið mikill og enn meiri ef farið er tvö ár aftur í tímann. Auðlindagjaldið er reiknað út frá gögnum Hagstofu Íslands, en afkomumunurinn á milli fiskvinnslu og útgerðar hefur verið 20%. Samt er það jafnað út, hvort sem viðkomandi útgerð er með fiskvinnslu eða ekki.

Reiknireglan sem notuð hefur verið rennur út næsta haust og er vinna hafin við endurskoðun. Vaxtaafsláttur sem veittur var af lánum sem tekin voru vegna kvótakaupa rann út síðasta haust, en hann var settur á á sínum tíma til að sporna við þungri greiðslubyrði eða gjaldþrotum sem blöstu við mörgum útgerðum.

Staðan í dag er sú að margar útgerðir glíma við bráðavanda í rekstri vegna þessa og hafa einhverjar brugðið á það ráð að selja. Varla getur það verið ásættanleg afleiðing veiðigjaldanna að samþjöppunin í útgerðinni hafi stóraukist síðan þessi gjaldaflokkur var settur á, en staðreyndin er sú samt sem áður að litlum og meðalstórum útgerðum hefur fækkað og margir eru að hugsa sinn gang. Róðurinn er þungur og hafa aðilar komið með hugmyndir um hvort hægt sé að taka upp vaxtaafslátt á ný af lánum sem tekin hafa verið til kvótakaupa, a.m.k. þangað til ný og endurbætt reikniregla lítur dagsins ljós.

Eins hefur Landssamband smábátaeigenda reiknað út að ofgreiðsla hjá smábátaútgerðum upp á 170 milljónir vegna fiskvinnsluþáttar fáist endurgreidd. Hugmyndin um þrepaskiptingu sem er hugsuð til handa þeim sem minnstan kvóta hafa er í umræðunni. Ég hef ekki enn hitt þann útgerðarmann sem ekki vill greiða auðlindagjald.