148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Félag kvenna í atvinnulífinu hvetur konur til að klæðast svörtu í dag til stuðnings #metoo-byltingunni og ég sé að við höfum margar, og reyndar karlar líka, í þingsal tekið það til okkar. Við höfum fylgst með hópum kvenna sem hafa stigið fram og sagt frá sögum af áreitni og ofbeldi, nú síðast félagi kvenna af erlendum uppruna sem söfnuðu saman sögum.

En það er einn hópur kvenna sem hefur hingað til ekki treyst sér til að gera sögur sínar opinberar og það eru fatlaðar konur. Þær búa líkt og konur af erlendum uppruna við margþætta mismunun og sumar eru hreinlega í þeirri stöðu að þurfa að reiða sig á þann sem beitir þær ofbeldi um aðstoð í daglegu lífi.

Ég vil brýna stjórnvöld til að muna eftir fötluðum konum í vinnu sinni að breyttu samfélagi og í því sem við sem samfélag getum gert til að bregðast við #metoo-byltingunni. Mér finnst ekki síður mikilvægt að brýna okkur á Alþingi í störfum okkar til að styðja við fatlaðar konur. Lög sem eru samþykkt á Alþingi geta nefnilega haft áhrif á öryggi fatlaðra kvenna.

Mig langar sérstaklega að nefna í því ljósi lög um félagsþjónustu sveitarfélaga sem eru nú til umfjöllunar í hv. velferðarnefnd. Sjáum til þess að fræ #metoo-byltingarinnar nái að spíra alls staðar í samfélaginu og nái til allra kvenna, líka til þeirra kvenna sem hingað til hafa ekki treyst sér til þess að stíga fram og segja sögu sína. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)