148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

stjórn fiskveiða.

6. mál
[16:44]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Ég held að þarft sé að ræða þá tillögu af því slík tillaga er til að mynda ekki rædd innan þverpólitískrar nefndar sem skipuð var á síðasta ári með von í brjósti að við mundum ná nauðsynlegri sátt um þann þátt er varðar greiðslu fyrir aðganginn að takmarkaðri auðlind sem er tvímælalaust í eigu þjóðarinnar.

Þegar við skoðum sögu og uppbyggingu íslenska fiskveiðistjórnarkerfisins hefur gengið á ýmsu. Menn kenna oft stjórnmálamönnum um ákvarðanir er tengjast fiskveiðistjórnarkerfinu, um það hvernig yfirbragðið er í umræðu um fiskveiðistjórnarkerfið. En ég vil þakka öllum flokkum, alveg þvert yfir línuna frá hægri til vinstri eða hvernig sem menn vilja orða það, fyrir að hafa tekið hér mikilvægar ákvarðanir og erfiðar pólitískar ákvarðanir, erfiðar ákvarðanir fyrir til að mynda þingmenn Vestfjarðakjördæmis á sínum tíma. Það var erfitt fyrir þá að fara heim í kjördæmið og segja: Það er búið að koma hér á kvótakerfi. Árið 1984 var sú erfiða ákvörðun tekin eftir nokkuð langan aðdraganda, ofveiðar og fleira. Menn horfðu líka í tölur þar sem við blasti að það þurfti að gera eitthvað. Þá axlaði pólitíkin ábyrgð í samvinnu við hagsmunaaðila.

Aftur var tekin ákvörðun í kringum 1990 um frjálsa framsalið, enn þá umdeilt að margra mati. Ég tel að það hafi verið rétt skref því að það ýtti undir hagkvæmni, verðmætasköpun og frekari framleiðni innan greinarinnar. Það er enn þá umdeilt, en þá ákvörðun tók vinstri stjórn á meðan hægri stjórn tók hina mikilvægu ákvörðunina, ef hægt er að orða það þannig.

Allt litrófið í stjórnmálunum hefur komið að því að byggja upp sjávarútveginn eins og hann er í dag. Það er ekki þar með sagt að flokkarnir hafi hætt að gagnrýna. Menn koma hér með tillögur til þess að reyna að ná því sem ég tel mikilvægast, af því að ég vil undirstrika að í heildina tel ég íslenskan sjávarútveg vera vel upp byggðan. Auðvitað er hægt að gagnrýna hvernig hann hefur þróast. Ekki er alltaf tekið tillit til 2. málsliðar 1. gr. fiskveiðistjórnarlaganna um að ákvarðanir í tengslum við kerfið þurfi að taka tillit til byggðar og atvinnu á viðkomandi sviðum. Það er hægt að gagnrýna. En það hefur líka leitt til nauðsynlegrar hagræðingar sem við þurftum á að halda því að þá var sjávarútvegurinn meira og minna á hausnum, stór fyrirtæki sem smá, og rekstrarhagkvæmni var lítil. Við vorum að þróa okkur inn í það kerfi sem er að mínu mati að mörgu leyti til fyrirmyndar. Við sjáum nú fram á einn sterkasta þorskstofn síðustu 40 árum, hann hefur ekki verið sterkari í 40 ár, vegna þess að við tökum skynsamlegar ákvarðanir í tengslum við vísindalega ráðgjöf og hagkvæmni í veiðum og vinnslu.

Ég get líka dregið fram að einn þátturinn sem er mjög jákvæður í tengslum við uppbyggingu sjávarútvegsins og fiskveiðistjórnarkerfisins er ábyrgðarhlutinn að byggja upp meiri umhverfisvernd. Við sjáum vistsporið í hafinu í íslenskri lögsögu alltaf verða betra og betra með hverju árinu sem líður. Það er verulegur munur núna á vistsporinu í sjónum í dag og t.d. árið 2002.

Það er því mjög margt jákvætt sem kemur út úr þessu. Við sjáum vissulega störfum fækka í veiðum og vinnslu, en á öðrum stöðum, í virðiskeðju sjávarútvegsins í heild er störfum í rauninni að fjölga. Við sjáum nýsköpunar- og sprotafyrirtæki spretta fram, ýmis markaðsfyrirtæki í tengslum við sjávarútveginn o.s.frv. Það má kannski segja að sjávarútvegurinn sé sú grein sem tekur merkjanleg skref í fjórðu iðnbyltingunni sem margir tala um. Við förum í fiskvinnslufyrirtæki, frystihúsin á landsbyggðinni, m.a. hjá ÚA fyrir norðan þar sem verið er að taka í gagnið merkilega róbóta sem taka við af mannstýrðum lyfturum, fólki að stilla upp í gáma, hillur, raða niður o.s.frv. Það eru góðu hliðarnar og nokkuð sem við getum dregið fram fyrir hönd íslensks sjávarútvegs, fyrir utan það að þar sem ég hef komið fram á erlendri grundu sem ráðherra, bæði mennta- og vísindamála en líka sem sjávarútvegsráðherra, þá er ég iðulega spurð um hvernig við förum að þessu. Við höfum margt að segja og margt fram að færa, við Íslendingar, þó að sagan til dagsins í dag hafi ekki verið átakalaus og mörkuð ákveðnum erfiðum skrefum.

Ég er ánægð með þau ferli og þau skref sem við höfum tekið í íslenskum sjávarútvegi. En eftir stendur það sem þetta frumvarp minnir okkur á, að við eigum eftir að ná sátt um sanngjarnt, réttlátt gjald fyrir aðganginn að takmarkaðri auðlind landsmanna, að sýnt sé í verki að 1. málsgrein 1. gr. fiskveiðistjórnarlaganna hafi einhverja þýðingu fyrir alla flokka. Ég sá merki þess, og var þess vegna stundum kölluð Pollýanna á síðasta ári, að allir flokkar áttuðu sig á þeirri ábyrgð þegar þeir voru kallaðir til skrafs og ráðagerða á síðasta ári til þess að fjalla um hvernig við ætluðum að ná þessari sátt, þeim þætti sem á eftir að taka pólitíska ákvörðun um.

Það gagnrýndu ýmsir, m.a. Sjálfstæðisflokkurinn að hann fengi ekki langflestu fulltrúana af því að hann væri nú stærstur og mestur. Ég horfði á það þannig að það væri mikilvægt, hversu stórir eða smáir sem flokkarnir væru, að allir hefðu bara eina rödd við borðið og myndu koma sér saman um ákveðna niðurstöðu. Þetta var að þróast. Það lá ljóst fyrir að allir flokkar, nema reyndar einn, Sjálfstæðisflokkurinn, komust að þeirri niðurstöðu að það væri þess virði að skoða tímabundna samninga. Hvað þýðir það að vilja skoða tímabundna samninga? Það þýðir, og er grundvallarafstaða, að viðurkennt er að auðlindin í hafinu í kringum Ísland sé sameign íslensku þjóðarinnar. Með því að viðurkenna tímabundna samninga var dregið fram að þjóðin á auðlindina í hafinu. Þess vegna þarf að semja um það með þessum hætti.

En því miður náði nefndin ekki að klára. Þá stöndum við frammi fyrir því: Hvað ætlum við að gera? Þess vegna segi ég: Þó að ég sé ekki sammála þessu frumvarpi í öllu er það liður í því að halda áfram með þessa umræðu af því að við í stjórnmálum megum ekki gefast upp. Ég er stundum pínulítið þreytt að heyra mína góðu vini í sjávarútveginum segja: Heyrðu, það er bara pólitíkin sem á sök á því að talað er illa um sjávarútveginn. — Alls ekki. Eins og ég benti á í upphafi eru það einmitt stjórnmálin sem hafa tekið skynsamlegar ákvarðanir sem stutt hafa við sjávarútveginn, stutt við það sem við erum að gera í þessari góðu atvinnugrein. En pólitíkin verður þá að halda áfram og klára verkið. Verkið er ekki fullklárað.

Ég hef saknað þess að öflug hagsmunasamtök útgerðarmanna fari ekki inn á þá braut og segi: Gott og vel, nú skulum við setjast niður. Það er ótvírætt að fara ekki í neinn orðhengilshátt sem við upplifðum svo oft varðandi skilgreininguna á eignarrétti, hver væri nákvæmlega skilgreindur eignarréttur þjóðarinnar og hver ekki. Er það óbeinn eignarréttur eða beinn o.s.frv.? Það liggur alveg ljóst fyrir hvernig það er í mínum huga, og ég er líka lögfræðimenntuð, eftir að hafa fylgst með því hvernig að þessu er búið og hvernig þetta snýr. Í þeirri stjórnarskrárvinnu sem við erum að fara í núna þurfum við að fara strax í það verk að klára auðlindaákvæðið í stjórnarskrá. Það er lykilatriði, líka til þess að ná að fullgera myndina varðandi sjávarútveginn.

En ég sakna þess að útgerðarmenn — af því að 90% af þeim mönnum og konum sem eru í tengslum við sjávarútveg gera sér algjörlega grein fyrir því að það gengur ekki til lengdar að halda áfram þessari vinnu nema að vera í sátt við þjóðina. Við höfum öll fyllstu ástæðu til þess að vera stolt af íslenskum sjávarútvegi. Íslenskur almenningur, pólitíkin og líka þeir sem starfa innan greinarinnar.

Þess vegna auglýsi ég eftir þeim framsýnu forustumönnum, sem við höfum iðulega haft í greininni, til þess að stíga fram og segja: Komið, elsku vinir, klárum þetta. Þrýstið á hæstv. ríkisstjórn að fara ekki bara í þá vinnu núna þegar þarf að fara að endurskoða veiðigjöldin, að nálgast endurskoðun veiðigjalda. Það er bara eitt sem kemur frá ríkisstjórninni, það er lækkun veiðigjalda. Ókei, tökum þá þá umræðu. En það er bara nálgun ríkisstjórnarinnar. Með nálgun hennar er ekki reynt að reyna að ná sátt í málinu, að ná sáttinni til lengri tíma, að undirstrika að þjóðin í landinu á fiskinn í sjónum.

Ég auglýsi eftir því að ríkisstjórnin geri eitthvað almennilegt í þessum málum, haldi áfram að gefa það út að hún hafi metnað til þess að ná sátt um aðganginn að auðlindinni. En sumir segja að það sé bara best að gera ekki neitt. Þess vegna sé ríkisstjórnin skipuð eins og hún er í dag. Ég vil ekki hafa það þannig.

Þess vegna segi ég: Við þurfum að halda áfram, við þurfum að ræða markaðslausnir í sjávarútvegi. Ég og við í Viðreisn höfum verið fylgjandi því að ræða markaðslausnir, að hluta til uppboð, til þess að reyna að finna hið raunverulega verð fyrir kílóið. Hvað er markaðurinn tilbúinn að borga? Ég óttast ekki að fjársterkir aðilar komi og kaupi upp markaðinn. Þeir kvarta nú þegar undan fyrirkomulaginu eins og það er. Af hverju ættu þeir að fara þá inn á uppboðið og sprengja alla skala? Ég er þannig og hef alltaf verið þannig að ég treysti markaðnum, ég treysti fyrirtækjunum hvort sem þau eru stór eða smá að borga rétt verð, það sem markaðurinn sjálfur getur borgað. Mun það bitna á byggðum landsins? Ég held ekki. Ég tel ekki að það muni gerast.

Ef það eru einhverjar vísbendingar um að það verði umfram þá þróun sem verið hefur á liðnum árum þá eigum við að fara út í úthlutun á byggðakvótanum. Hvort sem við erum sammála byggðakvótanum eða ekki þá erum við með ákveðið kerfi. Sértæki byggðakvótinn gengur ágætlega, en þarf ákveðna uppstokkun í almenna byggðakvótanum. Tillögur liggja fyrir í ráðuneytinu, sem við í Viðreisn munum fylgja eftir, um að færa ákvörðunarvaldið í byggðakvótanum til sveitarfélaganna, að það séu sveitarfélögin á landsbyggðinni sem fengið hafa byggðakvóta, að það verði þeirra að ákveða hvernig þau úthluta honum í samræmi við þær þarfir sem eru innan sveitarfélaganna. Vilji þau semja við útgerð gera þau það. Vilji þau semja við vinnslufyrirtæki þá gera þau það. Og vilji þau leigja út byggðakvótann til annarra sveitarfélaga sem þau fá til 10 ára, af því 10 ár er ákveðinn fyrirsjáanleiki fyrir sveitarfélögin, eigum við þá ekki að gefa þeim sjálfdæmi? Ég sé það vel fyrir mér gerast á Vestfjörðum, Súðavík, Ísafirði, Bolungarvík, því að mér hefur t.d. verið sagt á Súðavík að þau vilji frekar fara í að byggja upp ferðaþjónustuna.

Þess vegna höfum við líka sagt: Hvort sem það er í gegnum byggðakvótann eða auðlindagjaldið, þá á auðlindagjald í sjávarútvegi, hvort sem það er í gegnum markaðslausnir eða ákvörðun í tengslum við samninga, að fara að hluta til í uppbyggingu innviðanna, ekki síst á landsbyggðinni. Það verður að tengja það við landsbyggðina til þess að gera það sanngjarnt. Þjóðin á að mínu mati að koma með í þá vegferð.

Viljum við í Viðreisn viljum við fara markaðsleiðina? Já, við höfum talað fyrir því innan sáttanefndarinnar, en við gerum okkur grein fyrir því, alveg eins og ég vona að aðrir flokkar og aðrir talsmenn hagsmunaaðila geri sér grein fyrir, að við þurfum öll að mætast á miðri leið. Við þurfum öll að mætast einhvers staðar til þess að reyna að ná samkomulagi sem við þráum öll um sjávarútveginn til þess að geta haldið áfram að byggja upp.

Ég er að mörgu leyti skotin í því sem hér kemur fram sem tengist markaðslausnum og uppboði, en ég er ekki hrifin af því sem tengist umframkvótanum eða viðbótarkvótanum því að eins og kerfið er uppbyggt er erfitt að taka frá og afgreiða sér. Þegar við skárum þorskkvótann niður í 130 þús. tonn árið 2007 tóku fyrirtækin á sig miklar skerðingar og fengu engar bætur fyrir. En þau gerðu það í þeirri vissu að þegar og ef viðbótin kæmi, eins og er að gerast núna, fengju þau að njóta hagkvæmninnar og ákvarðanatökunnar, sem var mjög þung árið 2007. Þannig að mér finnst erfitt að taka þann hluta, viðbótina, út fyrir sviga og setja á markað þó að ég skilji hugsunina. Mér finnst að það þurfi að halda henni á lofti, ekki síst markaðsleiðinni.

Ég held þá að við tökum úr sambandi hvatann til þess að gera betur miðað við núverandi kerfi, og þá er ég að tala út frá núverandi kerfi. Á meðan við höfum ekkert markaðs- eða uppboðskerfi verður erfitt að fjarlægja þann hvata að viðbótin fari ekki til þeirra sem þegar eru í útgerð.

Gjaldið þarf að vera sanngjarnt. Þar er baráttan eftir. Þar þarf að halda ríkisstjórninni við efnið. Hún skilar auðu og eiginlega verra en það, hún skilar bara einhverjum djókum. (Forseti hringir.) Hún skilar akkúrat engu sem gagnast þjóðinni allri og hún skilar engum (Forseti hringir.) vísbendingum um að hún ætli að hafa þann metnað sem við köllum eftir til þess að sameinast enn frekar um grein (Forseti hringir.) sem okkur þykir ekki bara vænt um heldur höfum mikla þörf fyrir að haldi (Forseti hringir.) áfram að byggjast upp eins og hún hefur gert á liðnum árum.