148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

almenn hegningarlög.

37. mál
[17:22]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég fór stuttlega yfir í ræðu minni og kemur fram í greinargerð hafa vissulega fallið dómar. Það eru nú þegar til, að mati sumra, viðunandi greinar í lögunum. Vandinn er sá að þær greinar sem eru í almennu hegningarlögunum voru ekki hugsaðar til að bregðast við svona brotum. 209. gr. fjallar um blygðunarsemisbrot. Ef ég les þá grein sem almennur borgari les ég ekki úr henni að stafrænt kynferðisofbeldi sé bannað. Ég hugsa um fólk sem berar sig á opinberum vettvangi eða eitthvað því um líkt eða áreitir fólk á einhvern hátt.

Það er mjög mikilvægt að fólk sem verður fyrir stafrænu kynferðisofbeldi skilji lögin. Þrátt fyrir 209., 233. b og 234. gr. hafa fórnarlömb slíkra brota átt mjög erfitt með að ná málum sínum fram. Skynjun mín af því að kanna þau mál er sú að réttarkerfið viti hreinlega ekki hvað eigi að gera við þau. Kerfið okkar veit það ekki nákvæmlega. Vonandi batnar það með tímanum og ég geri reyndar ráð fyrir því eftir því sem hæstaréttardómar falla. En borgarinn hefur skýlausan rétt til þess að skilja lögin. Þetta er í fyrsta lagi vandamálið, að lögin eru ekki skýr, og reyndar fjarri lagi.

Ég tek svo líka undir með hv. þingmanni í sambandi við refsirammann. Eins til tveggja ára refsirammi er bara einhver skilaboð. Það er alveg eins hægt að lýsa því í blogggrein, að mínu viti. Það hefur ekki meiri áhrif en það. Refsiramminn þarf að vera hár, enda alvarlegt brot, og hann var hugsaður sérstaklega til þess að gefa lögreglunni þær rannsóknarheimildir sem hún þarf til að rannsaka þau mál sem alvarleg kynferðisbrot, sem þau vissulega eru.

Þetta eru þau vandamál sem ég geri ráð fyrir að setning frumvarpsins lagfæri.