148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

almenn hegningarlög.

37. mál
[17:26]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað varðar þau mál brotaþola sem ég nefndi er best að kanna þau annars staðar en í andsvörum vegna þess að þau eru einfaldlega það viðamikil. En m.a. hefur lögreglan ekki tekið á málum á þann hátt sem maður myndi vilja. Það er eins og lögreglustofnanir sjálfar átti sig ekki á því og eðlilega því að lögin eru ekki skýr við lesturinn. Það sést í raun á vandræðaganginum í kringum það hvort beita eigi 209. gr. eða 233. b og ef hún gengur ekki þarf að fara í 234. gr., allt eftir aðstæðum brotaþola og öðru slíku. Vandræðagangur í kerfinu í sambandi við þetta brot er frekar augljós. Þetta er hugsað til að leysa það.

Hv. þingmaður nefnir að við verðum að passa okkur á að þrengja ekki réttarstöðuna frá því sem nú er. Það er alveg hárrétt. Athugasemdir komu fram við áður framlagt frumvarp, sem var lagt fram á 145. löggjafarþingi, minnir mig. Þá var refsiramminn undir einu til tveimur árum á meðan refsiramminn fyrir 209. gr., blygðunarsemisgreinina, er fjögur ár. Umsagnaraðilar höfðu réttilega áhyggjur af því að þarna væri verið að þrengja að réttindum brotaþola. En í þessu frumvarpi er refsiramminn hækkaður upp í sex ár og svo er í 2. mgr. ákvæði sem er hugsað til þess að fólk átti sig á því að það ber ábyrgð á því að vernda efni af þessu tagi, jafnvel ef það hefur efnið í sínum fórum með leyfi viðkomandi ber það ábyrgð á því að það komist ekki í dreifingu.

Svarið við spurningu hv. þingmanns um hvort þetta frumvarp hafi fengið yfirferð réttarfarsnefndar er nei, en það hefur verið tekið tillit til þeirra umsagna sem bárust við meðferð fyrra máls, sem var reyndar lagt fram af öðrum flokki. Ég geri fastlega ráð fyrir að athugasemdir eða áhyggjur af slíku komi fram við meðferð hv. allsherjar- og menntamálanefndar.