148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

64. mál
[18:29]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og fyrir að flytja þetta frumvarp. Hv. þingmaður kom inn á margt í sinni ræðu. Ég er með þéttskrifað blað með athugasemdum sem hefði verið full ástæða til að fara í gegnum allar í andsvari við hv. þingmann en mun gera það í ræðu minni á eftir.

Hv. þingmaður fullyrðir ýmislegt í sinni ræðu, segir að alls staðar í heiminum tali menn um betri viðskipti og svoleiðis. Veit hv. þingmaður einhvers staðar um eitthvert ríki þar sem ekki er sérstakur stuðningur við landbúnaðinn eða að hann búi við aðra umgjörð en aðrir? Það má nefna Bandaríkin, en þar er einmitt sérstök vernd við landbúnaðinn og umhverfi hans.

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann hvort ekki sé rétt hjá mér að Samkeppniseftirlitið hafi verið gert afturreka með allar nema smávægilega athugasemd af því sem það hefur sótt að landbúnaðinum með? Er ekki rétt hjá mér að Samkeppniseftirlitið hefur alltaf verið gert afturrækt með allt sem það hefur reynt að fara í landbúnaðinn með, sérstaklega mjólkina, því að Samkeppniseftirlitið er náttúrlega með landbúnaðinn á heilanum.

Hv. þingmaður talar eins og almenn samkeppnislög eigi ekki við um landbúnaðinn og eigi ekki við um mjólkina. Er það misskilningur hjá mér að mjólkuriðnaðurinn fái undanþágu frá ákveðnum hluta samkeppnislaga? Ég hef kannski misskilið þetta allan tímann en ég hef alltaf haldið að það væri bara lítill hluti samkeppnislaga sem mjólkuriðnaðurinn væri undanþeginn.