148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

64. mál
[19:15]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er athyglisvert í þessu ljósi að menn stoppa alltaf við það að neytendur hafi ekki notið góðs af þessu. Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson fór yfir ákveðið plagg frá Háskóla Íslands þar sem menn segja svart á hvítu að þessar tölur séu svona. Hv. þm. Þorsteinn Víglundsson svaraði því áðan að það hefði breyst á undanförnum tveimur árum. En varðandi allar þær breytingar sem á þessu eru, varðandi rekstur kúabúa, framleiðslustýringu o.s.frv., þá eru mjög margir þættir sem renna alltaf að þeim sama grunni hvers vegna hægt er að greiða bændum ásættanlegt verð fyrir framleiðslu sína. Það er stóra dæmið í þessu. Það er stóri munurinn á því sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hefur stundum verið að rugla saman, sauðfjárbændum og kúabændum, þegar verið er að tala um að betra sé fyrir bændur að hafa frjálsa samkeppni. Menn verða að fara að skilja að umgjörðin í kringum Mjólkursamsöluna gerir það að verkum að kúabúskapur er arðbær atvinnugrein á Íslandi. Það er stóri munurinn á þessum tveimur greinum.