148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

pólitísk ábyrgð ráðherra.

[11:19]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Hæstv. dómsmálaráðherra hefur talað um það í fjölmiðlum að hún axli pólitíska ábyrgð með því að mæta í fjölmiðlaviðtöl og fjalla um störf sín. Nú hefur hæstv. ráðherra hins vegar ítrekað farið með rangt mál í fjölmiðlum. Þegar Stundin birti gögn úr dómsmálaráðuneytinu í síðustu viku fullyrti ráðherra að gögnin hefðu einvörðungu borist þessari nefnd. Þetta var rangt og þetta sagði ráðherra að því er virtist til að breiða yfir þá staðreynd að eftirlitsstofnun, umboðsmaður Alþingis, hafði þá þegar kallað eftir sömu gögnum.

Hæstv. ráðherra sagði í viðtali við mbl.is um daginn að skjölin sem Stundin birti mánudaginn 22. janúar hefðu aldrei átt að birtast, þau væru vinnugögn. Nú eru engar viðkvæmar persónuupplýsingar í þeim gögnum svo ráðuneytinu hefði verið fullheimilt að veita fjölmiðlum og þar með almenningi upplýsingarnar á grundvelli ákvæðisins um aukinn aðgang í upplýsingalögum. Hvers vegna fannst hæstv. ráðherra svona mikilvægt að þau gögn færu leynt? Hvers vegna fannst hæstv. ráðherra svona mikilvægt að almenningi væri haldið óupplýstum um embættisfærslur hennar við skipun landsréttardómara?

Sama dag skýldi ráðherra sér sérstaklega á bak við það í viðtali við mbl.is að hún hefði ekki sjálf fengið tölvupósta þar sem fjallað er um mikilvægi þess að hún legði mat á hæfni allra umsækjenda út frá nýjum forsendum. Nú er alveg ljóst af þeim gögnum sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur fengið að vissulega bárust ráðherra gögnin í tölvupósti, m.a. frá ráðuneytisstjóra. Hvernig stendur á því að ráðherrann getur ekki veitt fjölmiðlum viðtöl án þess að afskræma sannleikann og gefa ýmist ranga eða villandi mynd af atvikum þessa ömurlega máls?

Sýnir þetta ekki að hæstv. ráðherra treystir sér ekki eða getur ekki axlað pólitíska ábyrgð með fjölmiðlaviðtölum einum saman?