148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

aðgengi að íslenskum netorðabókum.

[11:29]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir fyrirspurnina og fyrir að vekja máls á mikilvægi þess að við setjum íslenskuna í öndvegi. Ég tek undir að það er brýnt að auka aðgengi að íslenskum orðabókum. Eitt af því sem fræðasamfélagið og fleiri hafa verið að gera á undanförnum árum er að byggja upp mikinn efnivið hvað þetta varðar en aðgengi er ekki alveg nógu greitt. Ég er sammála honum í því. Þetta er eitt af því sem ég vil skoða þegar við vinnum að þessum málaflokki.

Ég vil nefna þær aðgerðir sem við erum að vinna að. Í fyrsta lagi er verið að vinna að þingsályktunartillögu sem miðar að því að setja íslenskuna í öndvegi. Hún verður í nokkuð mörgum liðum þar sem við munum beina sjónum okkar að bókaútgáfu, kvikmyndum, fjölmiðlum og öðrum slíkum þáttum. Þetta er mjög spennandi verkefni og segja má að þjóðin sé algerlega í liði með okkur því að ein af stóru áskorununum á þessu kjörtímabili verður svo sannarlega að styrkja alla umgjörð er varðar íslenska tungu.