148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

útlendingar.

42. mál
[12:26]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég legg það ekki í vana minn að vera með miklar fullyrðingar um vísindasvið sem ég hef ekki kynnt mér sérstaklega — og jafnvel þó að ég hafi kynnt mér það sérstaklega er ég ekki mikið fyrir fullyrðingar. En ég deili vissulega þeirri sýn með hv. þingmanni að ég hef ekki orðið þess áskynja að þetta sé almennt mjög áreiðanleg tækni. Ef ég hugsa um það sem óbreyttur leikmaður þá mundi ég halda að þessi fræði krefðust þess að fólk, sem verið væri að rannsaka að þessu leyti, ælist allt upp við svipaðar kringumstæður. Ég hugsa að tennur í fólki séu mjög misjafnar eftir því hvaðan það kemur og við hvaða aðstæður það býr. En eins og ég segi, ég þekki ekki vísindin á bak við þetta.

Við meðferð stóra útlendingamálsins, þegar við settum þessi lög á sínum tíma, nýju lögin, þá kom þetta oft til tals í hv. allsherjar- og menntamálanefnd, þar sem ég sat á þeim tíma. Það var einlæg skynjun mín að slíkar greiningar væru alla vega ófullkomin vísindi, ég held að það sé alveg óhætt að segja það, kannski eitthvað sem hægt er að nota til viðmiðunar á einhverjum tímum. En eins og ég segi, ég held að þetta verði alltaf svolítið flókið, verði svolítið erfitt.

Auðvitað er þetta einfaldasta mál. Hvers vegna förum við ekki, og nú veit ég að ég fer ábyggilega í taugarnar á fólki sem vill passa að hér séu engir útlendingar, í tanngreiningar og gefum fólki atvinnuleyfi, Íslendingum, þegar það verður 16–18 ára gamalt. Þeir mega vera hérna, þeir bara mega vinna hérna. Ef við værum með minna af tálmunum fyrir það fólk sem kemur hingað þyrftum við ekki að standa í þessum vafaatriðum; bara einfalt atriði eins og að hafa dvalarleyfi á grundvelli atvinnuþátttöku er ekki til á Íslandi. Þetta eru sérfræðingaleyfi, það eru til skortsleyfi svokölluð, en fólk sem vill koma hingað og vinna, stofna fyrirtæki, opna pizzastað eða eitthvað, má það ekki nema það komi frá EES eða uppfylli einhver önnur skilyrði, sé gift Íslendingi eða EES-borgara eða eitthvað því um líkt.

Ef við hefðum slík leyfi, ef við værum bara minna að stressa okkur yfir því hvort fólk væri hérna eða ekki, ef við værum bara frjálslyndari með þetta, þá væri þetta minna vandamál. Þá þyrftum við síður að svara einhverjum svona vísindalegum spurningum úr pontu Alþingis. Heyri menn og biðji.