148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

brottnám líffæra.

22. mál
[13:53]
Horfa

Flm. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þótti vænt um að hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson skyldi koma hingað upp og halda ræðu um þetta frumvarp; hann hefur starfað sem læknir um árabil og hefur mjög góða þekkingu á því sviði. Mig langar til að spyrja þingmanninn og heyra hans sýn á það sem ég nefndi í framsöguræðu minni hér áðan varðandi mögulegar breytingar á þjálfun starfsfólks og samhæfingu innan stofnana og á milli þeirra. Þegar við skoðuðum menntun og fræðslu verðandi heilbrigðisstarfsfólks á þessu sviði, gagnvart líffæragjöf, nefndi ég að hún virðist vera frekar takmörkuð og meira tilviljunarkennd en formföst. Mig langaði að heyra aðeins meira af því hvað þingmanninum finnst um það og hvernig hann sjái fyrir sér að við getum breytt því. Ég spyr einnig hvort hann sé sammála því að lagabreyting í átt til ætlaðs samþykkis muni þá auðvelda heilbrigðisstarfsfólki að nálgast aðstandendur og aðstandendum þá mögulega að taka þessa ákvörðun. Eins og þingmaðurinn nefndi eru þetta mjög fá tilfelli á ári. Ég held að ég fari rétt með að títtnefndur Runólfur Pálsson læknir hafi sagt hér á mánudaginn á frönsku sýningunni að það væru einungis þrír af hverjum 1.000 látnum sem kæmu til greina sem gjafar. Þetta eru mjög fáir einstaklingar á ári, það eru til tölur um þetta hjá landlækni.

Ég sé að tími minn er búinn en ég kem meiru að í næsta andsvari.