148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

brottnám líffæra.

22. mál
[14:07]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, það eru svo sem alveg fleiri tækifæri, kannski ekki í daglega lífinu en í því sem við gerum sem fullorðnir einstaklingar til að spyrja fólk. Ein leiðin er til að mynda að spyrja þegar fólk sækir um rafræn skilríki, eitthvað þess háttar. Ég held að hugmyndin að spyrja um leið og fólk tekur bílpróf sé í rauninni tvíþætts eðlis, þ.e. tilgangur spurningarinnar þá er tvíþættur: Annars vegar að fólk svari með sjálfu sér þeirri spurningu en vakni líka til vitundar um að við það að aka ökutæki og takast á hendur þá ábyrgð að stjórna vélknúnu ökutæki geti menn lent í þessum aðstæðum. Þess vegna er það svo mikilvægt þar. Ég er kannski ekki að segja að það sé forvarnagildi í því beinlínis en það er það samt að vissu leyti. Þess vegna er mikilvægt að spyrja þar.

Ég veit ekki með skattskýrsluna. Ég hef hreinlega ekki velt því neitt fyrir mér hvort það ætti við þar. En það er náttúrlega þannig með þessi mál öll að ég er ekki viss um að það sé gott að dreifa þessu mjög víða í samfélaginu, þ.e. spurningunni eða vangaveltunum. Þar kemur til smæð samfélagsins hérna. Við erum afskaplega lítið samfélag. Það þekkja nánast allir alla. Ég held að það sé ekki gott að þessar vangaveltur séu á hendi margra opinberra aðila eða jafnvel einhverra annarra heldur sé reynt að halda á þessu á eins einfaldan og skýran hátt og hægt er.