148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

rafræn fasteignaviðskipti og ástandsskýrslur fasteigna.

13. mál
[14:56]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni framsöguna um tillögu til þingsályktunar um rafræn fasteignaviðskipti og ástandsskýrslur fasteigna. Það er margt mjög athyglisvert við fyrstu rýni. Ég ætla í andsvari að spyrja út í c-lið, sem hv. þingmaður fór ágætlega yfir, en þar stendur: „að stuðla að því, án þess þó að gera það að beinni lagaskyldu, að eigendur fasteigna sem ætlaðar eru til íbúðar haldi viðhaldsdagbók sem sé færð rafrænt undir fastanúmeri eignar“. Þetta er mjög athyglisvert.

Þetta er jafnframt fjallað um í greinargerð og samlíking við tilgang olíudagbóka. Það er hvatinn í þessu, væntanlega augljós sá, þegar menn hyggja á sölu ætti fasteignin mögulega að vera söluvænni af því henni hefur verið haldið vel við og það er staðfest í slíkri bók. Hugmyndin er því mjög góð.

Af því að tillagan felur ekki beinlínis iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sem tillögunni er beint að, að vinna þetta í gegnum verkefnahóp eða starfshóp þá vakna alls konar spurningar varðandi eftirlit og hversu nákvæmar upplýsingarnar eru. Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér að vinna úr því?