148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

notkun og ræktun lyfjahamps.

18. mál
[16:05]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þingmaðurinn kom inn á að lyfið gæti verið hjálplegt við verkjum. Það kann vel að vera. Til eru einhverjar rannsóknir sem sýna að það hjálpar við verkjum. Það eru líka til þúsundir, líklega milljónir rannsókna, sem sýna að önnur lyf eru hjálpleg við verkjum. Þegar kannabis er metið „head-to-head“, eins og það er kallað á ensku, þ.e. beint á móti öðrum lyfjum við verkjum, þá stendur það lyf sig ekki sérlega vel. Aukaverkanatíðnin af því er allt of há til þess að það sé ásættanleg áhætta sem felst í því að nota það lyf fyrst og fremst við sjúkdómum. Það eru engin rök í sjálfu sér að það sé fullt af öðrum hættulegum lyfjum á markaðnum. Það er hrein og klár rökleysa að það réttlæti það að bæta enn einu hættulega lyfinu við á markaðinn. Ég get ekki séð að það sé neitt vit í því.

Að halda því fram að með því að lögleiða lyfið verði það eitthvað minna hættulegt — fyrir liggur að tetrahydrocannabinol er hættulegt efni. Það er alveg jafn hættulegt löglegt eða ólöglegt. (Gripið fram í: Nei.) Ef við erum að tala um geðsjúkdóma eins og geðrof eða kvíða eða þess háttar vandamál er alveg jafn vont að fá geðrof eða kvíða af löglegu eða ólöglegu tetrahydrocannabinol. Það breytir ekki neinu.