148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

útlendingar.

34. mál
[17:19]
Horfa

Flm. (Hanna Katrín Friðriksson) (V):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um útlendinga, um rétt barna til dvalarleyfis.

Að málinu stendur allur þingflokkur Viðreisnar; hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson, Þorsteinn Víglundsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, auk mín.

Frumvarpið var lagt fram 147. löggjafarþingi. Var framsögumaður þess Pawel Bartoszek, þingmaður Viðreisnar, en málið hlaut ekki afgreiðslu þá.

Í frumvarpinu er lagt til að 1. mgr. 71. gr. laganna orðist svo, með leyfi forseta:

„Heimilt er að veita barni yngra en 18 ára dvalarleyfi ef foreldri þess hefur dvalarleyfi á grundvelli 58., 61.–63., 65.–67., 70., 73.–76. eða 78. gr.“

Markmiðið með frumvarpi þessu er að styrkja rétt barna sem eiga foreldra frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins til að fylgja foreldrum sínum til Íslands.

Samkvæmt gildandi lögum um útlendinga, nr. 80/2016, er heimilt að gefa út dvalarleyfi fyrir börn ef foreldrar hafa slíkt dvalarleyfi á grundvelli 58. gr., þ.e. ótímabundið dvalarleyfi, 61. gr., dvalarleyfi vegna starfs vegna sérfræðiþekkingar, 63. gr., dvalarleyfi fyrir íþróttafólk, 70. gr., dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar eða sambúðar, 73. gr., dvalarleyfi á grundvelli alþjóðlegrar verndar, 74. gr., dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, eða 78. gr., dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið.

Flutningsmenn þessarar frumvarpsbreytingar telja að fleiri flokkar dvalarleyfa ættu að falla undir ákvæðið og veita rétt fjölskyldusameiningar þegar um er að ræða börn yngri en 18 ára enda geta eftirfarandi dvalarleyfi gjarnan verið undanfari lengri dvalar.

Í fyrsta lagi er lagt til að dvalarleyfi vegna tímabundins skorts á starfsfólki samkvæmt 62. gr. veiti framvegis rétt til að börn fylgi foreldrum sínum til landsins. Um er að ræða dvalarleyfi sem má veita í allt að tvö ár nema um sé að ræða skýrt afmarkaða og tímabundna verkframkvæmd sem tekur lengri tíma. Rétt er að geta þess að allt frá gildistöku laganna árið 2016 hefur umrætt dvalarleyfi mátt vera grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis líkt og ákvæði 61., 63., 73., 74. og 78. gr. sem talin eru upp í 71. gr. laga um útlendinga. Ólíkt þeim ákvæðum er þó ekki heimilt að veita barni leyfi til dvalar ef dvalarleyfi foreldris er á grundvelli dvalar vegna tímabundins skorts á starfsfólki.

Í öðru lagi er lagt til að dvalarleyfi vegna náms veiti jafnframt barni heimild til dvalar, án undantekninga. Núgildandi lög kveða á um að aðeins námsmenn sem stunda framhaldsnám á háskólastigi, doktorsnám og rannsóknir hér á landi á grundvelli 65. gr. eigi rétt á fjölskyldusameiningu. Það verður ekki séð hver nauðsyn þess er að undanskilja börn námsmanna í grunnnámi og láta þannig foreldra þeirra velja milli þess að koma hingað í nám eða vera með börnum sínum.

Í þriðja lagi þykja svipuð rök hníga að því að leyfa barni að fylgja foreldri þegar um er að ræða dvalarleyfi á grundvelli samninga við önnur ríki. Hér er um að ræða dvalarleyfi sem veitt eru ungu fólki á aldrinum 18–26 ára til að koma til Íslands og kynnast landi og menningu. Afleiðing gildandi laga er að ungir foreldrar og t.d. einstæðir foreldrar geta ekki nýtt sér umræddan dvalarleyfisflokk.

Loks er lagt til að dvalarleyfi vegna trúboða og sjálfboðaliða, samanber 67. gr., veiti einnig rétt samkvæmt framangreindu sem og dvalarleyfi fyrir hugsanleg fórnarlömb mansals samkvæmt 75. gr. og dvalarleyfi fyrir fórnarlömb mansals samkvæmt 76. gr.

Verði frumvarpið að lögum er áfram gert ráð fyrir að dvalarleyfi sérhæfðra starfsmanna á grundvelli samstarfs- eða þjónustusamninga samkvæmt 64. gr., dvalarleyfi vegna vistráðningar samkvæmt 68. gr. sem og dvalarleyfi vegna sérstaks og lögmæts tilgangs samkvæmt 79. gr. eða bráðabirgðaleyfi samkvæmt 77. gr. veiti börnum foreldra með slík leyfi ekki rétt til að fylgja foreldrum sínum til landsins. Þar er í flestum tilfellum um að ræða leyfi sem sannanlega eru ætluð til tímabundinnar dvalar. Vel má þó vera að þau rök sem lúta að réttindum barna eigi einnig við í þeim tilfellum, hins vegar þykja þær breytingar sem hér eru lagðar til ganga hæfilega langt að sinni a.m.k.

Virðulegur forseti. Þegar kemur að rétti fólks til að taka með sér börn, maka eða aðra fjölskyldumeðlimi stendur Ísland svipað að vígi og hin norrænu ríkin. Lagalega virðist staðan hafa batnað eilítið með útlendingalögunum sem samþykkt voru á þar síðasta kjörtímabili, en það er margt sem enn má laga. Þessi lög eru í sífelldri þróun og þetta frumvarp er liður í því. Börn eiga einfaldlega að geta fylgt foreldrum sínum óháð því hvort foreldrarnir eru í námi eða vinnu tímabundið.

Þá er augljóst að þessi regla stuðlar að ákveðnu leyti að misrétti kynjanna. Karlar eru líklegri en konur til að flytja tímabundið til útlanda og skilja börnin eftir. Það sýnir reynslan. Og við sem þjóð, einna fremst í flokki í jafnrétti, eigum að ganga á undan með góðu fordæmi hér eins og annars staðar.

Við viljum að Ísland sé land tækifæranna, að hingað vilji fólk flytjast og að fólki sé gert það kleift. Því fylgir að við viljum að fólk sem við viljum fá til landsins og viljum gera kleift að flytja hingað geti gert það með fjölskyldu sinni, með börnum sem eru yngri en 18 ára.

Það er ósk flutningsmanna að málið fái góða yfirferð hjá hæstv. allsherjar- og menntamálanefnd og komi hingað aftur til 2. umr. eins fljótt og auðið er.