148. löggjafarþing — 21. fundur,  5. feb. 2018.

stefna og hlutverk sendiráða Íslands.

[15:16]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Já, ég held að ég verði ekkert sérstaklega sökuð um neina kreddupólitík. Ég nefndi ágætisdæmi um Íslandsstofu sem var sett á laggirnar einmitt í tíð ríkisstjórnarinnar 2009–2013 þar sem saman komu aðilar atvinnulífsins og stjórnvöld. Ég veit ekki betur en að það samstarf hafi skilað heilmiklum árangri og ég held að það sé einmitt lærdómsferli. Það skiptir miklu máli að nýta þekkinguna þar sem hún er til staðar.

Ég nefndi menninguna áðan, en við getum leitað til hvaða kima og geira atvinnulífsins sem er, til að mynda okkar góðu nýsköpunarfyrirtækja sem eru að vinna gríðarlega gott starf í utanríkisviðskiptunum. Þar skiptir mestu máli að við nýtum þekkinguna úr grasrótinni. Ég hef því litið á þetta ekki síður sem samstarf stjórnvalda og grasrótarinnar í hverjum geira fyrir sig.