148. löggjafarþing — 21. fundur,  5. feb. 2018.

svör ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[15:39]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég held að í ljósi þeirra svara sem fram komu hér fyrr í dag hjá hæstv. forsætisráðherra sé ekkert annað í stöðunni en að bregðast við þeim tillögum sem formaður Miðflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, lagði fram hér rétt í þessu. Það er með miklum ólíkindum að menn tali hér, á sama tíma og verið er að sækja í það að ríkissjóður afsali sér forkaupsrétti, eins og það sé enginn forkaupsréttur. Það er svo augljóst að þarna liggur fyrir forkaupsréttur. Það er ekkert annað í stöðunni en að leggja fram þau gögn sem til eru. Við hv. þingmenn tölum hér daginn út og inn um mikilvægi gegnsæis og að öll gögn séu uppi á borðum. Nú bara tek ég undir það sem fram kom áðan, að hæstv. forseti beiti sér fyrir því að þessi gögn verði öll gerð opinber eins fljótt og kostur er.