148. löggjafarþing — 21. fundur,  5. feb. 2018.

svör ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[15:52]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vildi bara koma hingað upp og lýsa því yfir að ég styð það að þau gögn séu dregin fram nema einhverjar sérstakar ástæður séu til að gera það ekki. Þá þarf nefndin að vita hvers vegna þær eru ekki birtar. Ég verð að segja eins og er að ég hef ekki kafað í þetta mál jafn mikið og hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, en ég var viðstaddur umræðu um þingsályktunartillögu sem fór til efnahags- og viðskiptanefndar. Við hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson erum báðir í þeirri nefnd. Ég kem til með að styðja að mál hans komist á dagskrá þótt hann sé reyndar sjálfur framsögumaður þess. Það kom úr umsagnarferli 15. janúar þannig að ekkert er í vegi fyrir því að byrja að fjalla um það í nefndinni, hvort sem um er að ræða þingsályktunartillögu hv. þingmanns eða þá beiðni sem hann ber hér upp um að safna saman upplýsingum.

Ég veit ekki hvert vandamálið ætti að vera við að safna saman upplýsingum í þessu efni, a.m.k. ekki fyrir þingmenn, og (Forseti hringir.) vil bara nefna að upplýsingar geta ekki bara dregið fram einhverja vafasama hluti, þær geta líka dregið úr tortryggni. Ég hvet alla sem að málinu koma að setja fram sem mestar upplýsingar til að við getum rætt þetta á hvað bestan hátt (Forseti hringir.) en þá helst með lengri ræðutíma … [Hlátur í þingsal.]