148. löggjafarþing — 21. fundur,  5. feb. 2018.

langtímaorkustefna.

[16:16]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa ágætu umræðu. Það er gríðarlega mikilvægt að fá fram langtímaorkustefnu, rétt eins og langtímastefnu í öllum málum. En það verður að horfa töluvert langt til framtíðar, ekki bara að byggja á óskalista stjórnarinnar heldur einnig raunhæfum spám um framtíðarþróun sem kemur til með að hafa áhrif á stöðuna hér á landi hverju sinni.

Í stefnu Pírata segir að móta skuli stefnu til 20 ára um orkuframleiðslu og orkunýtingu sem sé endurskoðuð og uppfærð á fjögurra ára fresti. Það væri ágætisbyrjun. En samfélagið er að þróast og sér í lagi að stækka. Í því umhverfi vandast málið. Í máli hæstv. ráðherra kom fram að minnsta sviðsmyndin væri 14% aukning en stærsta 66% aukning, sem er töluvert mikið frá því sem nú er.

Við þurfum því að skoða heildarorkubúskap Íslands út frá því hvort og hvernig við viljum auka framboð og hvaða heildrænu áhrif það hefur. Við þurfum ekki að íhuga hvar verður virkjað frekar, heldur einnig hvar sé hægt að finna leiðir til að minnka orkunotkun, með skynsamlegri orkunotkun í mismunandi tilfellum, og draga úr sóun. Orkusparnaður með skilvirkari tækjum, svo sem ljósaperum, eins og við höfum gert, er af hinu góða en meira framboð mun líka framkalla meiri eftirspurn. Fólk er afskaplega duglegt við að finna upp nýjar leiðir til að nýta orku sem er til, sérstaklega þegar hún er ódýr. Tilhneigingin er að auka nýtingu allra auðlinda þar til allar auðlindir eru fullnýttar. Langtímaorkustefnan verður að fela í sér einhvers konar leiðir til að sporna við þeirri hegðun.

Tíminn er naumur hér en það er afskaplega margt sem þarf að ræða í þessu. Ég kem kannski inn á sértæk atriði í næstu ræðu.