148. löggjafarþing — 21. fundur,  5. feb. 2018.

leiga á fasteignum ríkisins.

81. mál
[16:55]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að varðandi framleiguna hef ég ekki upplýsingar um það með hvaða hætti eftirlitinu er háttað, en eins og ég rakti í máli mínu hefur umsjón með viðkomandi húsnæði almennt verið í höndum þeirra stofnana eða þeirra ríkisaðila sem í hlut eiga hverju sinni. Ef því væri til að dreifa að menn gerðu húsnæði af þessum toga að einhverjum viðbótartekjustofni fyrir sig tel ég engum vafa undirorpið að það væri brot á þeim reglum sem fjármálaráðuneytið hefur lagt í þessu efni. Ég vísa þar í það form sem hefur verið lagt til af hálfu ráðuneytisins, en sömuleiðis væri það gegn þeim anda laganna og reglna sem á lögunum byggja sem ég rakti í máli mínu.

Mig langar örstutt að koma inn á það mál sem hv. þingmaður rekur hér og hefur verið til umræðu. Það er þannig að fasteignasvið þjóðkirkjunnar sinnir umsýslu með fasteignum kirkjumálasjóðs. Ég hygg að þetta tiltekna húsnæði sem hv. þingmaður nefnir sé eign kirkjumálasjóðs. En innan þjóðkirkjunnar á fasteignasviðinu eru fjölmargir prestsbústaðir, prestsetursjarðir o.s.frv. eins og menn geta aflað sér upplýsinga um hjá þjóðkirkjunni. Um þetta kunna að gilda einhverjar aðrar reglur en þær sem kveðið er á um í þeim lögum sem ég hef vísað til.