148. löggjafarþing — 22. fundur,  6. feb. 2018.

störf þingsins.

[13:38]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar aðeins að gera grein fyrir ferð Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins til Grænlands á dögunum á þemaráðstefnu sem var haldin þar hjá Vestnorræna ráðinu. Þar kom margt fróðlegt fram. Rædd voru tækifæri og áskoranir í ferðaþjónustu á Vestur-Norðurlöndunum og málstofa haldin um þau mál. Það eru mismunandi áskoranir og verkefni í þessum þremur löndum.

Á Grænlandi er ferðaþjónustan líka að byggjast hratt upp. Þar horfa menn til þess að stækka flugvelli sem fyrir eru til að auka flutning fólks til landsins og innan lands, bæði í Ilulissat og í Nuuk. Þar eru ferðaþjónustuaðilar mikið erlendir og hagnaður fer mikið úr landi og er verið að tala um að reyna að halda hagnaðinum heima fyrir. Í Færeyjum er mikil áhersla lögð á menntun í greininni og að regluverkið sé styrkt og eflt. Þar er verið að setja ný náttúruverndarlög. Í máli ferðamálaráðherra kom fram að hér á Íslandi sé samstarf milli ráðuneyta um ferðamál og mikil áhersla lögð á sjálfbærni í greininni og að vöxturinn sé í sátt við samfélagið.

Vissulega erum við að glíma við mismunandi verkefni. Ég tel að það sé brýnt verkefni, við endurskoðun á samgönguáætlun, að við horfum til innviðanna og þá ekki síst flugvalla landsins. Þar eru miklar fjárfestingar sem hafa verið að drabbast niður. Við þurfum að byggja upp flugvelli landsins til þess að stýra ferðamönnum út um allt land í ferðaþjónustu allt árið. Ný samgönguáætlun þarf að endurspegla þá miklu þörf á innviðauppbyggingu á Íslandi. Við getum ekki bara tekið endalaust við fleira fólki ef innviði skortir, við vitum að þeir eru í lamasessi.