148. löggjafarþing — 22. fundur,  6. feb. 2018.

afleiðuviðskipti, miðlægir mótaðilar og afleiðuviðskiptaskrár.

93. mál
[14:33]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er gríðarlega spennandi umræðuefni og ég er alls ekki að gera þingmanninum upp einhvern pólitískan leik hérna. Ég tek undir með honum að umræðuefnið er mjög mikilvægt og það hefur líka verið mikið rætt og alveg rétt, m.a. frá því að við gengum inn í Evrópska efnahagssvæðið.

Ég tel einfaldlega að það sé algjörlega óumdeilt meðal fræðimanna á Íslandi að til staðar séu heimildir til að framselja vald, líkt og við gerðum þá, en þar skiptir miklu og er algjört grundvallaratriði í mínum huga að um sé að ræða stofnanir sem við Íslendingar eigum aðild að.

Málin fara að flækjast þegar Evrópusambandið krefst þess að einstök aðildarríki að EES-samningnum samþykki að lúta boðvaldi stofnana sem EFTA-ríkin eiga ekki aðild að. Ég held að megi segja að þar séum við fyrst komin út á verulega hálan ís. Það kann að vera, ég ætla ekki að úttala mig um það í dag, að í afar afmörkuðum tilvikum myndi það ekki stríða gegn stjórnarskránni að samþykkja að lúta boðvaldi slíkra stofnana, þá kann að þurfa að skoða fyrirkomulagið hverju sinni og við erum með slík mál á dagskrá þessa þings að ég hygg.

Það er síðan tilefni til annarrar sérstakrar umræðu að við stofnuðum til EES-samningsins á grundvelli tveggja stoða kerfis þar sem við lútum boðvaldi þeirra stofnana sem við eigum aðild að og Evrópusambandsríkin lúta boðvaldi þeirra stofnana sem þau eiga aðild að. Þegar Evrópusambandið er núna, með þeim breytingum sem eru að verða á sambandinu og þar með samningnum, farin að krefjast þess að EFTA-ríkin lúti boðvaldi þeirra stofnana koma upp grundvallarspurningar um það t.d. hvort að Evrópusambandið sé yfir höfuð í stöðu til þess að gera slíka kröfu þegar horft er til uppruna EES-samningsins og þeirrar grundvallarhugsunar sem liggur að baki honum.