148. löggjafarþing — 22. fundur,  6. feb. 2018.

afleiðuviðskipti, miðlægir mótaðilar og afleiðuviðskiptaskrár.

93. mál
[15:01]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir svarið. Auðvitað er EES-samningurinn tvíhliða í þeim skilningi að hann er á milli EFTA-ríkjanna annars vegar og Evrópusambandsins hins vegar. Hann er náttúrlega ekki tvíhliða samningur Íslands og Evrópusambandsins þannig að við höfum skuldbundið okkur til þess að starfa saman með hinum EFTA-ríkjunum innan þessa ramma.

Hitt er síðan alveg rétt ályktað, held ég, hjá hæstv. fjármálaráðherra að EES-samningurinn og hið evrópska samstarf hafa tekið gríðarlegum breytingum frá því við gerðum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, það er alveg rétt. En það finnst mér líka vera svolítill hluti af því sem ég gerði að umtalsefni áðan, að alþjóðamálin þróast hratt. Þess vegna held ég að það sé mjög nauðsynlegt fyrir ríki eins og Ísland, sem er þrátt fyrir allt lítið og mjög háð því að geta átt samskipti við önnur ríki og gert það með réttum hætti, að við skoðum mjög vandlega þann ramma sem t.d. stjórnarskráin setur okkur.

Ég var ekki alveg sannfærður um svör hæstv. ráðherra um að eining og eindrægni væri milli stjórnarflokkanna um það hversu langt eða skammt mætti ganga í þessu tilliti. Þá hefur einhver breytt um afstöðu. En ég get ekki skilið hæstv. fjármálaráðherra öðruvísi en svo, það hlýtur eiginlega að vera miðað við ræðuna sem hann flutti, að honum þyki þessi staða vera orðin óviðunandi fyrir hönd Íslands þannig að hann hlýtur að ætla að aðhafast eitthvað í málinu. Það getur varla falist í neinu öðru en að óska eftir því að Evrópusambandið láti af því háttalagi sínu (Forseti hringir.) að fara fram á þessi atriði sem hæstv. fjármálaráðherra líkar illa.