148. löggjafarþing — 22. fundur,  6. feb. 2018.

íslenskur ríkisborgararéttur og barnalög.

133. mál
[16:07]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég átta mig ekki á tilvísun hv. þingmanns til tímafrests, hv. þingmaður útskýrir það kannski nánar á eftir. Það er rétt að árétta að frumvarpið lýtur aðallega að ríkisfangsleysi. Ef hv. þingmaður var að vísa til barna sem eru ríkisfangslaus þá vil ég geta þess að það er afar sjaldgæft að hingað til Íslands komi ríkisfangslaust fólk, fullorðnir eða börn. En það liggur fyrir að miðað er við að ríkisfangslausir geti öðlast ríkisfang hér að nokkrum tíma liðnum. Ástæða er talin til að hafa einhver tímamörk þannig að ljóst sé, sérstaklega ef um börn er að ræða, að þau hafi einhver tengsl við landið, að þau hafi dvalið hér áður en þau fá ríkisfang á þessum grunni. Er þetta í samræmi við reglur og viðmið Alþjóðaflóttamannastofnunar sem veitti ráðgjöf við samningu frumvarpsins. Það væri kannski ágætt ef hv. þingmaður vísaði aðeins nánar í það ef einhverra nákvæmari skýringa er þörf á þessum lið.