148. löggjafarþing — 22. fundur,  6. feb. 2018.

íslenskur ríkisborgararéttur og barnalög.

133. mál
[16:08]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það sem þingmaðurinn átti við er kannski það að tíminn byrjar ekki að líða hjá þeim sem hingað kemur og er ríkisfangslaus, eða fæðist hér og er ríkisfangslaus og án heimilda til dvalar, fyrr en búið er að afgreiða þá umsókn. Það er sá raunveruleiki sem ég er að vísa í og byggi það á störfum mínum. Þú getur ekki byrjað að telja fyrr en þú ert kominn í lögmæta dvöl þannig að allur þessi tími getur liðið.

Það eru fleiri spurningar sem brenna á þingmanninum. Það er líka varðandi 16. gr. laga um íslenskan ríkisborgararétt sem varðar þá einstaklinga sem eru fæddir fyrir 1964 og fylgdu ríkisfangi föður á þeim tíma, hvort ekki hafi komið til álita í ráðuneytinu að koma eitthvað til móts við þá einstaklinga sem eiga íslenska móður en erlendan föður, fylgdu ríkisfangi föður á þeim tíma. Að minnsta kosti höfum við fengið fregnir af einum slíkum sem hefur nú í tvígang verið synjað um íslenskan ríkisborgararétt fyrir Alþingi og hjá Útlendingastofnun vegna þess að 16. gr. laganna heimilar ekki.

Þá er það lokaspurningin varðandi þetta frumvarp og beini ég henni til hæstv. dómsmálaráðherra: Hver vann þetta frumvarp? Var það starfsfólk ráðuneytis sem veitti ráðgjöf við samningu þess? Eða er þetta frumvarpi komið frá dómsmálaráðherra einum og hennar hyggjuviti? Ég held að það sé nauðsynlegt að þingheimur sé upplýstur um það, sér í lagi í kjölfar yfirlýsinga dómsmálaráðherra á undanförnum dögum og vikum, varðandi það að hún telji sér ekki skylt að fara að ráðum sérfræðinga ráðuneytisins um þau mál sem hún sendir frá sér.