148. löggjafarþing — 23. fundur,  7. feb. 2018.

almannatryggingar og félagsleg aðstoð.

39. mál
[16:03]
Horfa

Flm. (Halldóra Mogensen) (P):

Forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð.

Með frumvarpinu er lagt til sérstök uppbót til framfærslu verði felld úr gildi og fjárhæð hennar færð undir ákvæði um tekjutryggingu. Með þessari breytingu yrði stuðlað að minni skerðingu fyrir lífeyrisþega þar sem sérstaka uppbótin skerðist um 100% vegna allra tekna sem lífeyrisþegi kann að fá, en slík skerðing hefur í daglegu tali verið nefnd króna á móti krónu skerðing. Það gerir að verkum að fyrir ákveðna upphæð tekna skerðast lífeyrisgreiðslur að sama marki og verða því tekjur lífeyrisþega óbreyttar þrátt fyrir atvinnuþátttöku hans. Það að ein gerð tekna eyði annarri gerð að öllu leyti hefur mjög letjandi áhrif á atvinnuþátttöku lífeyrisþega.

Það er staðreynd að margir lífeyrisþegar kjósa að taka ekki þátt á atvinnumarkaði vegna umfangs þeirra skerðinga sem þeir myndu þá verða fyrir. Ákvörðun um að taka ekki þátt í vinnumarkaði getur virst betri fyrir lífeyrisþega þar sem atvinnuþátttaka þeirra myndi ekki skila þeim auknum tekjum. Þess vegna sjá margir lífeyrisþegar sér ekki hag í að vinna þrátt fyrir að þeir kunni að hafa starfsgetu. Hætta er á að upplifun þeirra verði sú að vinnuframlag þeirra sé lítið eða einskis virði. Með afnámi þessarar uppbótar myndast aukinn hvati til atvinnuþátttöku þeirra sem þessi uppbót á við um í dag.

Þessi skerðing á sérstakri uppbót til framfærslu vegna atvinnutekna var áður einnig við lýði hjá ellilífeyrisþegum. Hún var afnumin með breytingu á lögum nr. 116/2016, þar sem gerðar voru ýmsar einfaldanir og breytingar á ellilífeyriskerfinu. Að gera slíkt hið sama fyrir örorkulífeyrisþega er réttlætismál óháð hugmyndum um starfsgetumat.

Hvað varðar kostnað við slíka aðgerð hefur hann þegar verið áætlaður. En þó skal sá fyrirvari gefinn að kostnaðarmat gæti þarfnast endurnýjunar.

Á 146. löggjafarþingi lagði hv. þm. Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, fram fyrirspurn til félags- og jafnréttismálaráðherra þar sem spurt var um lífeyrisgreiðslur í almannatryggingakerfinu. Meðal þeirra þátta sem spurt var um var hver árlegur aukakostnaður ríkisstjórn við almannatryggingakerfið yrði af því að fella sérstaka uppbót á lífeyri vegna framfærslu samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð inn í tekjutryggingu samkvæmt 22. gr. laga um almannatryggingar og afnema þannig krónu á móti krónu skerðingu vegna annarra tekna örorkulífeyrisþega.

Fram kom að kostnaður við slíka aðgerð yrði um 10,9 milljarðar kr. Það verður þó að halda því til haga að þar er einungis metinn hreinn kostnaður við slíka aukningu. Ekki var lagt mat á mögulegar tekjur sem myndu skapast af aðgerðinni t.d. með aukinni atvinnuþátttöku lífeyrisþega, aukinni framleiðslu og auknum skatttekjum. Raunverulegur kostnaður er því talsvert lægri.

Forseti. Það skal nefnt að þetta frumvarp var lagt fram á síðasta ári og því miðast gildistaka þess við 1. janúar þessa árs. Ég mun því leggja til að sú dagsetning i uppfærist í 1. janúar 2019 við meðferð málsins í nefndinni.

Einnig ber að nefna að í kjölfar þess að frumvarpið var lagt fram bárust athugasemdir þess efnis að frumvarpið gæti haft neikvæð áhrif á þann hóp örorkulífeyrisþega sem er með skertar örorkugreiðslur vegna búsetu. Þetta er fámennur hópur sem er í mjög viðkvæmri stöðu og er það ekki ætlun flytjenda að skerða laun þeirra frekar. Þvert á móti þarf að tryggja þessum hóp viðunandi framfærslu. Það hafa þegar komið fram tillögur að úrbótum og legg ég því til að þær tillögur verði ræddar við meðferð málsins í hv. velferðarnefnd og að fundin verði lausn sem tryggir að framangreindur hópur beri ekki skarðan hlut frá borði. Það er mjög mikilvægt.