148. löggjafarþing — 23. fundur,  7. feb. 2018.

samræming verklags um fjarfundi á vegum ráðuneyta.

45. mál
[16:46]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að tala of mikið um öryggismálin. Sérfræðingarnir sjá um þau. Þó að ég hafi svo sem ýmislegt við að athuga þar þá treysti ég alveg þeim starfshópi sem vinna mun með þessi mál. Mig langaði aðeins til að tala um það sem skiptir hér einna mestu máli að því er mér finnst. Og þetta er einmitt mjög gott upphafsskref. Komið hefur fram í máli annarra hv. þingmanna að þetta mætti alveg vera víðtækara. Ég held að það sé gott að byrja hér og prófa þetta á þrengri hópi til að byrja með og læra af því og taka síðan stærri skref í framhaldinu. Það er almenn regla þegar maður að prófar eitthvað nýtt, að byrja smátt og stækka síðan hringinn út frá því.

Aðalatriðið hér, sem mér finnst þetta mál koma inn á, er tími. Tími fólks. Á þessum síðustu og bestu tímum er tími fólks langsamlega dýrmætastur. Það er mikilvægt að nýta fjarfundatæknina sem þó er til, og hún verður sífellt betri á næstu árum. Það er ekki seinna vænna en að byrja sem fyrst á að nýta fjarfundatæknina til að spara ferðatímann fram og til baka, til þess að auðga þau samskipti sem fara fram í síma, eftir lýsingum að dæma. Við höfum samskipti á mjög fjölbreyttan hátt nú til dags. Augliti til auglitis, í gegnum texta, í gegnum myndbönd eða síma. Þá er munur á því hvernig við höfum samskipti í gegnum texta sem er t.d. skrifaður á litlu lyklaborði. Ég verð stuttorðari á litlu lyklaborði því að það gengur hægar að skrifa á lítið lyklaborð en stærra og maður fær einhvern veginn minni tíma.

Samskiptamátinn sem við notum skiptir rosalega miklu máli í því hvernig við komum því frá okkur. Það er mjög auðvelt að misskilja fólk í töluðu og skrifuðu máli, en það er munur á því. Þegar ég tala við fólk augliti til auglitis get ég horft í augun á því, séð hvort það kinkar kolli eða gefur á einhvern hátt til kynna að það skilji það sem ég er að segja. Það gerist ekki í texta. Þar hef ég ekki þann möguleika að aðlaga mál mitt til að útskýra betur hverju ég er að reyna að koma frá mér.

Hins vegar græði ég það í texta að ég get farið fyrr í umræðuna og séð nákvæmlega hvað sagt var. Það er mun erfiðara í töluðu máli þar sem maður man um það bil hvað sagt var fyrir fimm mínútum en ekkert endilega orð fyrir orð. Það auðgar umræðuna á annan hátt að vera með textann en þá missir maður þann möguleika að geta um leið uppfært það sem maður er að segja.

Þess vegna kemst fjarfundabúnaður næst því að vera eins og maður sé augliti til auglitis við fólk án þess að vera á sama stað. Mig langar bara til að minnast á það í kjölfarið að það er ekkert endilega svo fjarstæðukennt að halda því fram að við gætum jafnvel verið með þingfundi á fjarfundum. Við gætum verið með nokkra þingsali úti um allt land þar sem við værum almennt séð að vinna á þingfundi þó að við værum ekki í sama þingsal. Það getum við jafnvel gert seinna meir í sýndarveruleika. Hver veit? Það er ýmislegt við framtíðina og þessa tækni sem þarf að kanna og þeim mun mikilvægara að byrja sem fyrst.