148. löggjafarþing — 23. fundur,  7. feb. 2018.

mannanöfn.

83. mál
[18:18]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er einn af þeim sem hafa áhyggjur af íslenskri tungu og vernd hennar. Ætli mér sé ekki óhætt að segja að ég hugsi um það nánast á hverjum einasta degi hvernig við getum verndað tunguna. Veit þingmaðurinn til þess að önnur þjóðríki hafi einhverjar reglur um mannanöfn eða hvort í lagasetningu annarra ríkja séu tilteknar reglur um hvað börnin megi heita og hvernig það eigi að vera?

Við höfum tiltölulega stífa löggjöf um tunguna á Íslandi og hvernig eigi að vernda hana. Í enskumælandi löndum til að mynda er sú löggjöf ekki næstum því eins stíf, alla vega ekki eftir því sem ég best veit. Við getum skilið það sem Íslendingar sögðu, eða a.m.k. lesið það sem þeir sögðu fyrir þess vegna þúsund árum síðan. Þeir sem mæla enska tungu geta engan veginn lesið það sem skrifað var (Forseti hringir.) á enska tungu fyrir þúsund árum.