148. löggjafarþing — 23. fundur,  7. feb. 2018.

mannanöfn.

83. mál
[18:36]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég gleðst mikið yfir þessu frumvarpi. Mér verður oft hugsað til lags þegar lög eins og þessi eru í umræðu. Ég ætla ekki að syngja fyrir ykkur en þetta er lagið þar sem segir að ekki megi gera hitt og ekki þetta. Farið er yfir ýmislegt í textanum sem er bannað, eins og að pissa bak við hurð, nota skrúfjárn fyrir sleikjó eða jafnvel skoða lítinn kall. Það er einmitt þetta lag sem maður hugsar til þegar maður horfir á úrelt lög sem banna fólki að ráða nafni sínu eða nafni barnanna sinna. Í 5. gr. laganna segir, með leyfi forseta:

„Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.“

Stundum þegar rætt er um þetta mál og mannanafnanefnd og upp kemur hugmynd um að breyta lögunum er eins og það sé eitthvað í lögunum sem segir að mannanafnanefnd passi að nöfnin séu við hæfi. Það er ekki svo. Mannanafnanefnd ákveður ekki hvaða nöfnum börnum gæti verið strítt út af. Það er ekki verkefni mannanafnanefndar. Nöfn eru alls konar. Þau gera lífið fjölbreytt og skemmtilegt. En með þeim lögum sem við búum við í dag er fólk sem kýs að nefna barnið sitt Skallagrímur Thor og fær dagsektir þar til foreldrarnir ákveða að breyta nafni barnsins. Thor er nefnilega bara fyrsta nafn. Það er ekki millinafn. Skallagrímur er heldur ekki eiginnafn.

Sumir halda að mannanafnanefnd velji aðeins skrýtnu nöfnin í burtu. En hvað er skrýtið? Fyrir okkur í dag eru þessi tvö nöfn t.d. ekki skrýtin. Við erum vön því að lesa sögur um Skallagrím og Thor er ósköp eðlilegt nafn. Það kemur fólki á óvart þegar maður ræðir hlutverk mannanafnanefndar að hún skuli hins vegar leggja á dagsektir ef fólk nefnir barnið sitt Skallagrím Thor.

Það kemur fólki enn þá meira á óvart að leyfð séu ýmis nöfn sem fólk heldur að mannanafnanefnd stoppi af því þau teljast skrýtin í dag, eins og millinafnið Kaktus eða Mímósa. En það er ekki svo. Ég gæti heitið Áslaug Mímósa og finnst það hljóma nokkuð vel. En allt skal þetta vera samkvæmt ríkisreglum og þessi nöfn þykja hæfa vel en ekki má ég nefna son minn Skallagrím Thor.

Ég fagna því að frumvarpið er komið og tek undir með þeim sem hafa rætt mikilvægi íslenskrar tungu. Ég held að allir hér séu sammála um það mikilvæga verkefni. Við höfum lagt af stað í mjög mikilvægt máltækniverkefni, að koma íslenskunni í nútímaheim tækninnar og fjárfesta í uppbyggingu íslenskrar tungu, til að fjárfesta í þeirri tækniþróun sem við þurfum. Við erum öll sammála um að þetta frumvarp snúist ekki aðeins um það, því að mannanafnanefnd ritskoðar ekki nöfn sem þykja passa í dag heldur skoðar beygingar og málkerfi sem eru úreltar hugmyndir og forræðishyggja.

Ég hef lengi stutt að þessi lög yrðu afnumin og hlakka til að fylgjast með málinu í þinglegri meðferð, hvort það komi einhverjar athugasemdir eða hvort sérstakar umræður og breytingartillögur komi upp. Ég held að mikilvægt sé að málið sé rætt. Auðvitað hefur það verið lagt fram áður og ráðherrar hafa líka undirbúið svona frumvarp. Ég fagna því að við séum að ræða það að stíga skref í þá átt að veita foreldrum og fólki hér á landi frelsi til að nefna börn sín án takmarkana frá ríkinu.

Ég byrjaði á að vitna í lag. Mér finnst miklu skemmtilegra að syngja lagið Frelsið er yndislegt heldur en Lagið um það sem er bannað.

Ég fagna frumvarpinu og hlakka til að fylgjast með umræðu um það. Það er oft sagt í svona málum að þetta sé ekki mikilvægasta málið, sem er það sem þingmennirnir eru að hugsa núna á miðvikudagskvöldi, er þetta það mikilvægasta? En auðvitað forgangsröðum við. Það gera ráðherrarnir sérstaklega en við þingmennirnir líka. En að afnema úrelt lög sem skerða frelsi fólks til að heita það sem það vill má alveg vera forgangsmál fyrir mér. Við getum alveg nýtt tíma okkar betur og lagað lög eins og þessi og mörg önnur lög sem eru að mínu mati orðin úrelt, eru barn síns tíma og fylgja ekki því nútímasamfélagi sem við viljum búa í. Þá má nefna ýmislegt sem er enn þá bannað, þótt ég ætli ekki að fara í sérstaka umræðu um það. En það er ástæða fyrir því af hverju þau lög eru enn þá öll í gildi, að ég tel, það hefur nefnilega ekki verið forgangsmál að afnema lög eða fækka þeim heldur einungis að fjölga þeim og gera eitthvað nýtt.

Á þeim orðum vil ég ljúka máli mínu. Ég fagna því að frumvarpið sé komið á dagskrá, sama hvaðan gott kemur. Ég hef lengi ýtt á eftir og stutt ráðherra í mínum flokki sem hafa unnið að svipuðu máli í ráðuneytinu og þá sérstaklega fyrrverandi innanríkisráðherra og samflokkskonu mína, Ólöfu Nordal heitna, sem byrjaði málið af fullri alvöru í ráðuneyti sínu og vildi leggja niður nefndina. Ég fagna málinu og hlakka til umræðu um það þótt við munum að sjálfsögðu beita okkur fyrir þeim fjölmörgu málum sem eru á dagskrá þingsins, en það á ekki að koma í veg fyrir umræður um að afnema úrelt lög fyrir íslenskt samfélag.