148. löggjafarþing — 23. fundur,  7. feb. 2018.

mannanöfn.

83. mál
[18:52]
Horfa

Alex B. Stefánsson (F):

Virðulegi forseti. Þetta hefur verið athygliverð umræða hérna í dag. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni fyrir að koma að nafninu Alex sem hefur verið eilítið í umræðunni. Það er ágætt að segja frá því að Alex er önnur útgáfa af nafninu Alexander og er þá í ýmsum tungumálum í ólíkri útgáfu. Á Spáni er talað um Alejandro, í Rússlandi Alexei. Ég er með punkt með þessu, upprunalega þýðir alex verndari og sander þýðir maður, verndari mannanna var sem sagt upprunalega merkingin.

Málið er að konur geta líka verið menn, konur geta líka verið verndarar. Ef ég á að vera alveg hreinskilinn er ég hægfara breytingasinni þegar kemur að þessum málum og það er alveg á hreinu að það hljómar í mínum eyrum mjög sérkennilega að hér sé mannanafnanefnd. Á ensku væri mjög sovéskt að vera með einhvers konar mannanafnanefnd í þjóðfélaginu. Ég styð að farið sé í breytingar.

Svo er annað sem ég geri alvarlegar athugasemdir við, herra forseti. Það er að á Íslandi sé nefnd sem ákvarði hvað er rétt kyn. Hvernig stendur á því að við séum ekki komin lengra í umræðunni en svo að við séum að ákvarða með nefnd á vegum ríkisins hvað sé rétt kyn? Það er ekki hlutverk ríkisins að stússast í því og hljómar aftur frekar sovéskt.

Hugmyndin um að banna eftirnöfn á sér sögu. Þetta er ekki gripið úr lausu lofti. Áður fyrr átti íslenskan undir högg að sækja. Þegar menn fara í málverndarstefnu leggja menn mikla áherslu á það að hér hafi verið orðin ákveðin misskipting. Sérstaklega báru danskir selstöðukaupmenn flott eftirnöfn og það skapaði misskiptingu í þjóðfélaginu. Menn tóku upp á því að banna ný eftirnöfn. Á Norðurlöndunum kom hins vegar í ljós ástæðan fyrir því að þeir hættu að nota þetta kerfi. Þeir notuðu sama kerfi og við, þá voru menn -son og -dóttir og þar fram eftir götunum en menn hættu því þar vegna þess að það var eiginlega orðið ómögulegt að auðkenna menn, það bjuggu svo margir í landinu að ef menn báru sama nafnið var ómögulegt að vita hver þetta var nákvæmlega.

Ég ætla að taka sem dæmi nafnið Ólafur Ólafsson. Það er gott nafn og mér þykir vænt um það. Ég á bróður sem heitir Ólafur Ólafsson. Pabbi hans heitir Ólafur Ólafsson og afi hans heitir Ólafur Ólafsson. Við Íslendingar erum eiginlega orðin dálítið stór þjóð þannig að það að banna eftirnöfn hefur kannski ekki þann tilgang sem það hafði upprunalega. Ég er sammála því að þar á má gera ýmsar breytingar en númer eitt, tvö og þrjú er að hér sé engin nefnd sem ákvarði hvað er rétt kyn. Það er ekki ríkisins að ákvarða slíkt.