148. löggjafarþing — 23. fundur,  7. feb. 2018.

kosningar til Alþingis.

89. mál
[18:59]
Horfa

Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir breytingu á lögum um kosningar til Alþingis, þ.e. hvernig kosningaréttur er meðhöndlaður. Nú er það svo að flytjist fólk til útlanda þarf það að kæra sig inn á kjörskrá á átta ára fresti til þess að halda kosningarétti sínum. Upphaflega vildi ég breyta því á þann hátt að það skilyrði yrði einfaldlega fjarlægt. Ef maður er íslenskur ríkisborgari er maður með kosningarétt, en samkvæmt stjórnarskrá verður maður líka að vera með lögheimili á Íslandi. Þó er heimild í lögum til þess að víkja frá því. Það er gert með því að kæra sig inn á kjörskrá.

Ég gerði þær breytingar í tillögu minni sem lagfæringu við upphaflegu tillögunni að það þyrfti bara að kæra sig einu sinni inn á kjörskrá. Ef maður flytur til útlanda getur maður kært sig inn á kjörskrá og þá heldur maður kosningarétti þangað til maður deyr.

Ástæðan fyrir því að það þarf að kæra sig inn á kjörskrá er mér sagt að sé sú að ekki séu til upplýsingar hjá Þjóðskrá um lögheimili fólks fyrir nítjánhundruð sjötíu og eitthvað lítið, þannig að fólk þarf að sanna að það hafi einhvern tímann búið á Íslandi. Kæran snýst í rauninni um það að sanna að fólk hafi átt lögheimili á landinu.

Það á þá bara við um þá sem búið hafa í útlöndum í 50 ár, þannig að það fer mjög bráðlega að líða að því að ekki verði þörf á því að kæra sig inn á kjörskrá ef undanþágan sem við veitum er sú að maður hafi einhvern tímann átt lögheimili á Íslandi.

Þetta er milliskref til þess að hlífa fólki, sem er með kosningarétt á Íslandi en kýs í útlöndum, við aukaveseninu og þeirri aukaskriffinnsku sem fer í það hjá Þjóðskrá að halda utan um kjörskrána hverju sinni að hafa þetta kæruferli. Það er nógu mikið og erfitt að nýta kosningarétt sinn þegar maður er í útlöndum. Það er yfirleitt mjög langt að fara til ræðismanns eða sendiráðs til þess að kjósa. Þess eru dæmi að nemendur í Noregi sem ekki búa nálægt ræðismannsskrifstofu eða sendiráði, hafi einfaldlega ekki haft efni á því eða tíma til að taka lest um langan veg til þess að kjósa.

Það er enn meira letjandi að kjósa ef maður þarf að muna eftir því að kæra sig inn á kjörskrá, sérstaklega með tilliti til undanfarinna tvennra kosninga sem duttu inn með mjög skömmum fyrirvara. Fólk hafði jafnvel ekki tíma til að nýta sér það tækifæri að kæra sig inn á kjörskrá þótt það hefði viljað. Þó var lögunum breytt á þann hátt að vikið var frá þeim ákvæðum þar sem það verður venjulega að kæra sig inn á kjörskrá í síðasta lagi í desember, en gefið var svigrúm vegna þessara skyndikosninga í eina viku, eitthvað svoleiðis, eftir að lögin voru sett. Þá hafði fólk vikusvigrúm til þess að kæra sig inn á kjörskrá ef þannig stóð á.

Breytingin er mjög einföld. Hún sparar skriffinnsku og vesen að mínu mati. Eins og sagt er í greinargerðinni heldur fólk kosningarétti sínum ef það er íslenskir ríkisborgarar og hefur einhvern tímann átt lögheimili á Íslandi, þannig að þetta er mjög lítil breyting frá núverandi fyrirkomulagi. Þetta er bara eilítil einföldun á því umstangi sem nú er til staðar. Ég efast ekki um að þessu verði vel tekið, að þetta minnki báknið. Alla vega ætti einn af stjórnarflokkunum að taka því fegins hendi.