148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

kjör öryrkja.

[10:56]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi varðandi það hvernig þessar greiðslur hafa þróast á undanförnum árum þá höfum við hér frammi á þinginu svar frá félags- og jafnréttismálaráðherra sem svarar fyrirspurn frá þingmanni um hvernig heildargreiðslur Tryggingastofnunar til öryrkja frá 2005–2017 þróuðust. Svarið var að greiðslurnar hefðu hækkað á föstu verðlagi um 84,7%. En fólk lifir auðvitað ekki á prósentutölum. Fólk lifir ekki á því að heyra hvernig heildarfjárhæðin til alls hópsins þróaðist. Þetta skil ég mjög vel.

Hins vegar er engin ástæða til þess í þingsal að gera lítið úr því að við höfum náð að rétta hlut þeirra sem minnst hafa í þjóðfélaginu, mjög verulega á undanförnum árum, það teygir sig líka til öryrkja.

Hv. þingmaður spyr: Hvaða áform hefur ríkisstjórnin til að gera enn betur? Þá verð ég í fyrsta lagi að vísa til stjórnarsáttmálans sem talar um að við viljum ljúka endurbótum á réttindakerfi öryrkja. Um þetta hefur félags- og jafnréttismálaráðherra fjallað og hefur verið í samskiptum, frá því að ríkisstjórnin tók við, við helstu hagsmunasamtök þeirra sem hér eiga í hlut. Það samtal hefur farið ágætlega af stað. Ég tel að réttindakerfið sé, eins og það var hjá ellilífeyrisþegum, orðið allt of flókið, það séu fátæktargildrur í kerfinu sjálfu, það sé lítt hvetjandi. Það er mín sannfæring að við þurfum að geta unnið okkur í átt til nýrrar nálgunar sem felur m.a. í sér starfsgetumat. Þar eru mörg ljón á veginum, t.d. óttinn við það hjá þeim sem hér eiga undir að þeir tapi öllum réttindum sínum við það eitt að láta reyna á starfsgetu sína á vinnumarkaði og geti síðan ekki snúið til baka ef sú tilraun færi illa. Þetta (Forseti hringir.) er lítið dæmi um mál sem ég held að við þurfum að taka á í því samtali.