148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

skýrsla hagdeildar Íbúðalánasjóðs um þörf fyrir íbúðir á Íslandi.

[11:08]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Niðurstöður nýlegrar skýrslu frá Íbúðalánasjóði ættu að valda okkur öllum mjög miklum áhyggjum og vekja okkur til verka. Niðurstöður skýrslunnar eru sérstaklega alvarlegar miðað við önnur gögn sem verið er að vinna út frá.

Förum aðeins yfir þá þróun sem orðið hefur í þessum málum að undanförnu. Fyrir tæpu ári kom út greining sem var gerð af Þjóðskrá Íslands. Þar var ítarlega farið yfir tölur um fjölda íbúa í hverri íbúð, hlutfall eigenda og leigjenda og því um líkt. Niðurstöður greiningarinnar voru að vöntun á íbúðum hefur farið vaxandi frá árinu 2009 og þá vantar helst íbúðir fyrir yngra fólk. Það sem vantar upp á samkvæmt Þjóðskrá eru um 11.000 íbúðir til þess að ná sama íbúahlutfalli og fyrir hrun. Til þess að setja þá tölu í samhengi eru það íbúðir fyrir rúmlega 25.000 manns. Ef byggt væri nýtt bæjarfélag með þessu fólki væri það fjórða stærsta bæjarfélagið, rétt á eftir Hafnarfirði.

Á svipuðum tíma gefur Samband sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu upp að ekki vanti nema um 1.700 íbúðir til að markaðurinn verði í jafnvægi og það vanti um 10.000 íbúðir fyrir árið 2022. Á milli þessara tveggja greininga er hróplegt ósamræmi og því tek ég nýrri skýrslu Íbúðalánasjóðs fagnandi.

Í skýrslu Íbúðalánasjóðs kemur fram að það vanti 17.000 íbúðir fyrir lok ársins 2019. Það eru íbúðir fyrir næstum því 42.000 manns og væri annað stærsta bæjarfélag á Íslandi. Það þarf sem sagt að byggja heilan Kópavog plús Akranes á næstu tveimur árum til að ná í uppsafnaða þörf.

Sama dæmi, önnur sveitarfélög: Hveragerði, Vestmannaeyjar, Árborg, Mosfellsbær og Akureyri — samanlögð uppsöfnuð íbúðaþörf á Íslandi.

Það munar ekki miklu á milli þeirra talna sem koma fram í skýrslu Íbúðalánasjóðs og þeirra sem koma fram í greiningu þjóðskrár. Þær bæta í raun hvor aðra upp. Greining þjóðskrár gengur aðallega út á að komast að því hve margar íbúðir vantar ef hlutfall íbúa í íbúð lækkar í áttina að því sem það var áður. Það hlutfall er nú 2,5 íbúar í íbúð á Íslandi en hlutfallið er hátt í samanburði við nágrannalönd. Í Finnlandi er hlutfallið 2,1, Danmörk er með hlutfallið 2,0 og í Svíþjóð er það 1,9. Greining þjóðskrár sýnir hve margar íbúðir skortir til að ná fyrra íbúahlutfalli á íbúð en skýrsla Íbúðalánasjóðs sýnir þróunina á næstu árum í óbreyttu íbúahlutfalli.

Því má segja að skorturinn sé í raun enn meiri en fram kemur í skýrslu Íbúðalánasjóðs. Ef tekið er tillit til greiningar þjóðskrár vantar 18.500 íbúðir fyrir árslok 2019. Þetta eru hins vegar bara tölurnar. Sagan sem þær segja er miklu verri. Vegna skorts á húsnæði hafa margir flutt aftur heim til foreldra og á sama tíma hafa færri haft tækifæri til að flytja út frá ættingjum á eigið heimili og hefur hlutfall fólks á aldrinum 20–29 ára sem er í foreldrahúsum hækkað upp í um 40% á undanförnum árum. Bæði húsnæðisverð og leiguverð hefur rokið upp vegna framboðsskorts sem kemur niður á þeim efnaminnstu og fyrsta hjólhýsabyggð Íslands varð að veruleika.

Talning Samtaka iðnaðarins á fjölda íbúða í byggingu sýnir að núverandi fjöldi íbúða í byggingu rétt nær að halda í við uppbyggingarþörf. Sá uppsafnaði vandi sem við búum sem sagt við í dag verður að óbreyttu enn til staðar í lok ársins 2019.

Virðulegi forseti. Verkefnið er risastórt, alveg eins og öll hin verkefnin sem við stöndum frammi fyrir. Við höfum hins vegar staðið frammi fyrir svipuð verkefni áður. Eftir gosið í Vestmannaeyjum byggðum við það sem þurfti og húsnæðiskreppan á sjöunda áratugnum var leyst í kjölfar júlíyfirlýsingarinnar árið 1965 með byggingu Breiðholtsins. Fyrir áhugasama er greinin „Íbúðir fyrir fjöldann“, eftir Eggert Þór Bernharðsson, skyldulesning að mínu mati. Farið öll núna og lesið þá grein.

Tíminn til aðgerða er núna. Júlíyfirlýsingin var byggð á júnísamkomulagi Viðreisnarstjórnarinnar, ASÍ og Vinnuveitendasambands Íslands í tengslum við kjarasamninga árið 1964. Ég spyr þá: Við hvaða mánuð verður samkomulagið okkar kennt? Þetta er ekki mjög flókið, tölurnar tala sínu máli, sagan segir sitt, þróunin segir sitt. Við erum á þeim stað núna að án nokkurra viðbóta verðum við jafnvel í verra, ef ekki sama, ástandi eftir tvö ár.

Það vantar 18.500 íbúðir. Við verðum að bregðast við.