148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

markaðar tekjur.

167. mál
[12:40]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil undir lok umræðunnar taka fram að þetta er talsvert flókið mál. Við erum enda að hreyfa við mörgum tugum lagaákvæða sem hafa verið í föstum skorðum í langan tíma. Það er mikil grundvallarbreyting að taka það skref að segja mörkun liðna tíð. Það er hins vegar alveg rétt sem hefur komið fram hérna og var líka alveg viðbúið að sníða þyrfti sérlausnir fyrir einstaka tilvik, ég vék aðeins að því í máli mínu, og það er þá rökstutt í hvert og eitt skipti. En ég vonast, eins og ég hef áður sagt, til þess að góð samstaða geti tekist um málið.

Ég verð var við það að menn spyrja sig hvort ég sé að vísa málum til réttrar nefndar. Það var sú hugsun að baki því að segja málið eiga erindi til efnahags- og skattanefndar að markaðar tekjur séu í eðli sínu skattamál. Á móti kemur að þá voru lögin um opinber fjármál og það frumvarp sem við höfum stuttlega rætt, sem fjallaði um nákvæmlega sama mál, að koma frá fjárlaganefnd.

Ég ætla að ljúka máli mínu á því að segja að ég held að vel fari á því að þingið fái það í sínar hendur að vísa málum til réttrar nefndar. En ég hef sagt að málið væri skattamál vegna þeirrar reynslu sem fjárlaganefnd hefur af meðhöndlun laganna um opinber fjármál og af þeim fjölmörgu álitamálum sem eru í þessu máli má alveg halda því fram með gildum rökum að málið ætti frekar heima þar.