148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

179. mál
[15:39]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn frá hv. þingmanni. Varðandi öryggi okkar á Suðurnesjum, fyrir íbúana þar, þá liggur auðvitað fyrir að þar eru núna deilumál uppi sem hafa stöðvað frekari framkvæmdir. Það er eitt af því sem við munum upplifa í framtíðinni, þessar sífelldu deilur um línulagnir og jarðstrengi. Þar hefur krafan verið að fá jarðstreng. Mér er sagt að það muni hafa verulega slæm umhverfisáhrif að leggja jarðstreng í hraunið á Reykjanesi. Eftir því sem jarðstrengirnir eru stærri þeim mun meira verður helgunarsvæði þeirra. Mér er sagt að það geti tekið jafnvel allt að því eins og aðra Reykjanesbraut eða helminginn af henni, sem er náttúrlega óhemjumikið inngrip í náttúruna. Þess vegna held ég að við verðum að taka þessa umræðu á vitrænum nótum og án æsings og reyna að leiða fram þau bestu rök sem við getum og auðvitað með aðstoð þeirra sem gleggst þekkja.

Ég sé ekki að lausn okkar sé alveg í sjónmáli, en það er mjög brýnt fyrir okkur og, eins og ég tók fram, fyrir Norður- og Norðausturlandið að það fáist vissa um framhaldið og við séum að fara inn í tímabil sem tryggir öryggi á afhendingu raforku til framtíðar.