148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

179. mál
[15:46]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við afar brýnt mál, tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku, og þá grunninnviði sem flutningskerfi raforku er. Því ber að fagna. Þetta er í fyrsta skipti sem það er gert og tel ég ákaflega mikilvægt að þingið komi að þessum málum með þeim hætti sem hér er gert.

Tilgangurinn með tillögunni er að Alþingi álykti í samræmi við 39. gr. raforkulaga nr. 60/2003, að við uppbyggingu flutningskerfis raforku, þar með talið við gerð kerfisáætlunar, verði stefna sú sem fram kemur í þingsályktunartillögu þessari höfð að leiðarljósi. Það finnst mér mjög mikilvægt í þessari tillögu og þeim punktum og liðum sem fylgja á eftir. Tilgreind eru 15 áhersluatriði í 1. lið undir almennum atriðum. Mér fyndist allt í lagi að bæta við tveimur punktum þegar ég les yfir ályktunina. 16. punkturinn gæti verið: Betri nýting orkuauðlindarinnar með öflugu flutningskerfi raforku, þ.e. að hægt sé að nýta orkuna betur með þeim hætti að flutningskerfið sé það öflugt að hún geti farið greitt og örugglega á milli landsvæða. Þá er ég t.d. að hugsa hvernig komið er í dag fyrir virkjuninni í Blöndu þar sem 10–15 megavött hafa aldrei nýst. Það er eitt atriði. Svo mætti tala almennt um nýtingu á milli landsvæða. Og síðan gæti 17. atriðið verið um að tryggja raforkuöryggi á milli landsvæða með tilliti til náttúruhamfara. Þá vitna ég í umræðu sem varð þegar gaus í Bárðarbungu og upp kom gos í Holuhrauni. Þá skapaðist mikil umræða um Þjórsársvæðið og náttúruhamfarir sem gætu orðið þar. Það er því líka mál sem tengist mjög öryggishagsmunum þjóðarinnar að þessu leyti.

2. liður er mjög góður, en þar er fjallað um að láta fara fram frekari óháðar og sjálfstæðar rannsóknir sérfróðra aðila á áhrifum mismunandi tæknilegra lausna við lagningu raflína. Það er gríðarlega mikilvægt að skoða það betur. Það eru að verða miklar framfarir á þessu sviði og hafa verið síðustu sjö, átta árin þegar umræða hefur verið í gangi varðandi tæknina sem þróast mjög hratt og eins ýmsir möguleikar henni tengdir.

Ég vil sérstaklega vekja athygli á þeirri stöðu sem er í Eyjafirði, á mínu heimasvæði. Það er eitt af stærstu málunum í þessu plaggi, í kerfisáætlun og þeirri vinnu sem menn vinna að, en Eyjafjörður, Vestfirðir og Suðurnesin eru í mjög slæmum málum varðandi raforkuöryggi og gæði raforkunnar sem fer um þau svæði. Þessi svæði, sem eru stór landsvæði, búa við lélegt og takmarkað afhendingaröryggi. Í Eyjafirði er því þannig háttað að verulega hefur dregið úr samkeppnishæfni fyrirtækja á svæðinu. Jafnvel hefur verið talað um áratug glataðra tækifæra vegna þess hvernig ástandið hefur verið síðustu tíu ár.

Þar hafa verið settar upp dísilrafstöðvar fyrir háar upphæðir á undanförnum 12–18 mánuðum, fyrir yfir 100 milljónir, bara til að tryggja raforkuöryggi. Það er klárlega algerlega óviðunandi staða.

Það er að hefjast vinna við að tengja saman Blönduvirkjun og Fljótsdalsvirkjun. Þar þurfa að koma til þrjár línur. Byrja á á Kröflulínu 3, frá Kröflu yfir í Fljótsdalinn, og síðan á að halda áfram Hólasandslínu 3 frá Kröflu á Rangárvelli við Akureyri. Síðan er stefnt að því að Blöndulína 3 komi í framhaldinu. Þá verður búið að tengja þar á milli. Þar með yrði til raforkueyja með sams konar hætti og við þekkjum á suðvesturhorninu í dag og Þjórsársvæðið.

Í framhaldi af því þyrfti að skoða hvernig tengja eigi þessi svæði betur. Það eru þá orkusvæðin á Norðurlandi og síðan Þjórsársvæðið og suðvesturhornið.

Byggðalínan hefur verið mikið til umræðu. Ég er sammála hv. þingmanni sem talaði á undan mér um umræðu hér í þingsal á undanförnum árum að hún hefur þroskast að mörgu leyti. En ég vil láta skoða betur hvaða möguleikar eru í stöðunni varðandi hálendið, strengjaleiðir og DC-strengi, jafnstraumsstrengi. Og að ekki séu útilokaðir þessir kostir þegar horft er til framtíðar. Þróunin hefur verið mjög hröð á þessu sviði.

Í þessu samhengi vil ég árétta að ég hef miklar áhyggjur af því að áður en farið verður að loka fyrir alla möguleika með strengjalausnir eða leiðir yfir hálendið sé að minnsta kosti búið að ná utan um hvernig menn ætla að klára byggðalínuhringinn eins og leiðin er í dag, sunnan við Vatnajökul og upp Fjallabak, upp í Sigöldu til að loka hringleiðinni. Ég gæti alveg trúað að það landsvæði verði mörgum erfitt hvað lausnir varðar. Við þurfum að hugsa þetta miklu heildstæðara en gert hefur verið í umræðunni hingað til. Þegar við tölum um Sprengisand og síðan aftur Fjallabak geta líka aldeilis skapast vandamál. Það vantar svolítið heildarsýnina, að ná utan um allt málið.

Flutningsgeta byggðalínunnar í dag er 3–4% af aflgetu virkjananna í landinu. Það er allt of lítið. Það gerir það að verkum að við nýtum ekki orkuna nægilega vel. Það er mikið orkutap í kerfinu, upp á marga milljarða á ári, sem er þá bara þjóðhagslegt tap. Æskilegt hlutfall hefur verið talað um að gæti verið 15–20% til að fullnýta orkuauðlindina.

Ég er aðeins búinn að ræða öryggismálin og að klára tengingar á milli norðursvæðis og Þjórsársvæðisins og suðausturhornsins, varðandi góðar tengingar. Árið 2015 var umræða um málið. Þá fóru menn að skoða möguleika og voru sett lög árið 2015 sem snúa að þessum málum, að leggja mætti strengi og að kostnaður mætti vera tvöfaldur á við hefðbundnar línur við alþjóðaflugvelli og íbúabyggð. Það er eitt af þeim þroskaskrefum sem tekin hafa verið á þessum sjö til átta árum í þessa veru. Þá geta jafnvel komið upp tilfelli þar sem það er ekkert dýrara í sjálfu sér að leggja strengina en hefðbundnar háspennulínur. Þá þarf þá bara að skoða. Nú er nefnd að fara af stað til að skoða þessa hluti enn betur og á hún að skila niðurstöðum að ári. Mikilvægt er að sú vinna komi fyrir þingið að ári og við getum haldið áfram með þessa umræðu.

Í greinargerð með tillögunni segir, með leyfi forseta:

„Betri tengingar lykilsvæða og aukin flutningsgeta milli svæða varða einnig getu flutningskerfisins til að sinna hlutverki sínu ef til stórfelldra náttúruhamfara kemur.“

Einnig segir:

„Framkvæmdir í flutningskerfinu til að tengja betur lykilsvæði þurfa að vera í samræmi við þarfagreiningu og setja þarf þau landsvæði í forgang þar sem þörfin er brýnust.“

Það er nú það sem þetta mál snýst allt um. Ég vona að við náum ásættanlegri lausn í þinginu og við efnislega meðferð málsins. Þetta er klárlega eitt af allra stærstu málum á Íslandi í dag, hvað þá á landsbyggðinni, og er reyndar grundvallarmál fyrir áframhaldandi byggðaþróun ef hún á að vera með jákvæðum hætti.

Ég ætla að láta þetta duga að sinni. Ég sé að tími minn er að renna út. En vonandi náum við góðri niðurstöðu í þessum málum í framhaldinu.