148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

179. mál
[16:29]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þessu til svara eru svo sem kannski ekki mjög djúpir brunnar hjá mér. Að mörgu leyti eru þetta framkvæmdir sem varða allt landið. Það er mjög ólíkt mörgum framkvæmdum sem eru mjög svæðisbundnar. Það má líkja þessu við vegaframkvæmdir á Íslandi. Þar er ákveðin stjórnsýsla, ákveðið stjórnkerfi. Við höfum þetta í orkumálum, hvort sem er í flutnings- eða virkjunarmálum. Ég er alveg sammála því að á báðum þessum sviðum, hvort sem eru samgöngumál eða orkumál, er flækjustigið dálítið hátt. Ég hef varla í kollinum yfirsýn yfir það hér og nú ef ég ætti að telja það upp og útskýra það fyrir einhverjum.

Ég held að í þessu tilviki ættu hæstv. orkumálaráðherra, hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra og hæstv. sveitarstjórnarráðherra og jafnvel fleiri ráðherrar að setjast niður saman og fara aðeins yfir þessi mál og sjá hvar akkillesarhælarnir eru, hvar mætti bæta úr, hverju þyrfti að breyta, en ég legg aftur áherslu á að það verður að tryggja aðkomu hagsmunaaðila, almennings, sveitarfélaga o.s.frv. að þessu ferli öllu. Þetta þarf að gera þó það skilvirkt að það sé ekki uppi á borðinu að einhver tiltekin framkvæmd geti tafist í fimm til tíu ár vegna þess að hún velkist um í kerfinu, velkist um í kæruferlum. Það er ekki góð stjórnsýsla og ekki góður nútími, ef við orðum það þannig.