148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

frelsi á leigubifreiðamarkaði.

201. mál
[15:49]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þetta andsvar. Ég sé að hann er þess albúinn að henda hér inn frumvarpi sem beinist gegn hagsmunum einnar tiltekinnar stéttar án þess að hafa hugmynd um hvort þeir sem keppa við þessa stétt eru skráðir, löglegir eða skila sköttum. Mér finnst þetta mjög athyglisvert. (HHG: Veist þú það?)Nú er þannig mál með vexti að ég er á mælendaskrá hér á eftir og hv. þingmaður getur þá spurt mig út í það sem þar kemur fram, en ég er núna að spyrja hann. En mér þykja þetta mjög athyglisverðar upplýsingar.

Þess vegna ætla ég að umorða spurninguna og spyrja hv. þingmann: Hvernig telur hann að hægt sé að komast að því hversu margir stundi skutl hér á Íslandi til þess að tryggja öryggi þeirra sem ferðast með téðum skutlurum, til þess að tryggja að þeir gjaldi keisaranum það sem keisarans er, til þess að ganga úr skugga um að þeir hafi til þess bær réttindi að aka fólki? Það þarf meirapróf til að aka farþegum og taka gjald fyrir. Ég spyr hv. þingmann: Hvernig sér hann fyrir sér að hægt sé að afla þessara upplýsinga?

Hvað það varðar að semja um verð fyrir fram þá kom það hvergi fram í máli mínu að mér fyndist það eitthvað athugavert út af fyrir sig. Það sem ég sagði hins vegar var: Hvers vegna ætla menn að byrja þarna? Ef við tökum þetta aðeins lengra, hvar ætlum við að hætta að semja fyrir fram um verð á einhverju sem við viljum?

Og þá kemur önnur spurning. Venjulega er það svo að ef tvenns konar þjónusta er í boði og önnur er ódýrari en hin eru gæðin ekki á sama stigi. Þá kemur spurningin: Erum við og hv. þingmaður (Forseti hringir.) reiðubúin til þess að lækka gæðin á þjónustu fólksflutninga á höfuðborgarsvæðinu vegna þessa?