148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

frelsi á leigubifreiðamarkaði.

201. mál
[17:00]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já. Fjöldatakmörkun og flug, ég vil nú ekki leggja að jöfnu flug og fjöldatakmarkanir á stofnun flugfélaga, sem við höfum svo sem ekki sett. Það er frjáls samkeppni þar. Það getur vel verið að við þurfum að setja einhverjar fjöldatakmarkanir á fluglendingar á Íslandi en það er annar handleggur.

Við erum að ræða um ábyrga farþegaflutninga á landi. Þá kemur að því að þar eiga hlutir eins og öryggi að vera í fyrirrúmi. Hvað er þá betri umgjörð um það en að vera með það sem atvinnugrein, hreint og klárt? Ef atvinnugrein er fyrir hendi sem á að dekka, við skulum segja leigubílaleyfi í Reykjavík, sem eru 500–600 eða hvað það nú er, getum við ekki haldið því úti sem atvinnugrein ef við höfum þetta sem frjálst flæði. Við veljum það einfaldlega öryggisins vegna, vegna þess að þetta er umferð og umferð er hættuleg og það eru alls konar kröfur sem hægt er að gera til þjónustu þess að greiða 5.000 kr. fyrir leigubílaakstur, þá veljum við þá leið að reyna að finna út, og það má vel vera að fjölga þurfi leigubílaleyfum. Ég veit ekki til þess að neinn sé á móti því í sjálfu sér, en við veljum þá leið að þarna sé um að ræða takmarkaða auðlind sem mönnum er þá hleypt í sem fullri atvinnustarfsemi. Ég sé ekkert rangt við það vegna eðlis starfans. Ekki vegna þess að þar eru einhverjar fjöldatakmarkanir, í sjálfu sér, heldur bara vegna eðlis þessarar atvinnugreinar og þessara starfa.

Við getum svo farið að ræða um flugmenn og að gefa mönnum frjálsar hendur þar. Það er svo önnur Ella.