148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

frelsi á leigubifreiðamarkaði.

201. mál
[17:38]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að lesa alla tillöguna í heild sinni, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að afnema hámarksfjölda atvinnuleyfa til leigubifreiðaaksturs, fækka kvöðum fyrir veitingu þeirra og opna íslenskan leigubifreiðamarkað fyrir aukinni samkeppni.“

Það stendur hvergi að það skuli ekki vera krafa um tryggingar. Það stendur ekki að ekki skuli setja neinar kröfur um starfsemi leigubílstjóra eða bifreiðarnar sem þeir keyra. Það kemur ekki fram í tillögunni. Bara það að fækka kvöðunum hlýtur að vera eitthvað sem við viljum gera, sér í lagi ef við erum sammála um að t.d. gjaldþrota einstaklingar ættu að geta keyrt leigubíl, sem mér heyrist einhvern veginn hv. þingmaður í grunninn vera sammála mér um.

Hins vegar bendir hv. þingmaður á eitthvað sem ég ber virðingu fyrir, sem er að þegar nýtt fólk kemur inn í þessa starfsgrein sem þarf ekki að lúta sömu kröfum og þeir sem fyrir eru, þá myndast ákveðið ójafnvægi eða skynjuð ósanngirni gagnvart þeim sem þurftu að gangast undir allar þessar kvaðir. Ég ber fulla virðingu fyrir þeim punkti.

Ef við ætlum að nota hann til að vera á móti því að draga úr kvöðum, þá þýðir það að allar kvaðir sem við setjum á greinina séu í eðli sínu varanlegar. Við hljótum að þurfa að geta dregið úr svona kvöðum, þótt vissulega hafi einhver sem var á undan þurft að uppfylla einhverjar skyldur, annars gætum við aldrei farið í átt til neins frelsis vegna þess að það væri alltaf einhver á undan sem þyrfti að uppfylla einhver nánari skilyrði.

Eins og ég segi, það er alveg hægt að hafa einhver skilyrði um að viðkomandi skuli vera tryggður. Það er hins vegar algjörlega óhugsandi að fylgja eftir slíkum kvöðum eða slíkum skyldum að mínu mati ef það er starfsemi sem er ólögleg, eins og skutlarahópurinn.

Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann: Ef við breytum engu og þetta nær ekki í gegn og við hendum þessari tillögu út í hafsauga, bara að gamni, hvað eigum við þá að gera í þessu skutlaramáli? Hvað eigum við þá að gera í Uber? Hvað eigum við þá að gera í tækniframþróun?