148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

frelsi á leigubifreiðamarkaði.

201. mál
[18:19]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hv. forseti. Mér finnst að þetta mál eigi ekki að koma tækni við. (Gripið fram í.)Það er alltaf einhver sem keyrir þig. Þetta mál hefur ekki með það að gera hvern þú hringir í. Við ákveðum auðvitað hvaða kröfur við gerum til þess aðila sem ekur manni gegn gjaldi. Hvort maður getur farið í eitthvert app eða ekki eða hvað, hringt út og suður, mér finnst það bara engu máli skipta. (Gripið fram í.)Nei, ég er bara að spyrja: Hverjar eru kröfurnar? Kröfurnar koma ekki tækninni við.

Ég segi bara: Ég vil, ef ég ætla að borga rándýran bíl heim um miðjar nætur, að það sé bara alvörufólk sem keyrir mig á alvörubíl sem getur hjálpað mér ef ég lendi í andnauð o.s.frv. Það er það sem ég er að hugsa um. Ekki einhvern hippa sem hefur aldrei keyrt bíl áður og síðhærður (Gripið fram í.) og jafnvel með skegg sem gengur auðvitað ekki. Nei, þetta var auðvitað til gamans gert, ég vona að það verði ekki mikið blaðamál úr þessu. [Hlátur í þingsal.]

Ég vil gera ákveðnar kröfur og eins og ég sagði líka áðan þá hefði ég getað tekið undir ræðuna sem hv. þm. Þorsteinn Víglundsson flutti sjálfur á eftir hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni, ég hefði getað tekið algjörlega undir hana líka svo langt sem hún náði ef þessi greinargerð með þingsályktunartillögunni væri ekki, textinn.

Ég mun auðvitað ekki standa í vegi fyrir því að það verði aukin samkeppni eða kröftug samkeppni, skulum við segja, þar sem neytandinn getur haft meira valfrelsi o.s.frv., ef þessar kröfur eru alveg á hreinu og ganga jafnt yfir alla og ekki er slakað á þeim.