148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

almenn hegningarlög.

213. mál
[18:40]
Horfa

Flm. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum, um móðgun við erlenda þjóðhöfðingja. Flutningsmenn frumvarpsins eru ásamt þeirri sem hér stendur hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Ari Trausti Guðmundsson og Kolbeinn Óttarsson Proppé.

Ég ætla að lesa frumvarpið eins og það liggur fyrir, með leyfi forseta:

„1. gr. 95. gr. laganna fellur brott.

2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Frumvarpið er sem sagt ekki stærra í sniðum en sem þessu nemur.

En til skýringar umræðunni um það og hvers vegna þessi lagabreyting er lögð til ætla ég að fá að lesa 95. gr. almennra hegningarlaga, þ.e. greinina í frumvarpinu sem ég mæli fyrir og ég og aðrir flutningsmenn viljum fella brott.

95. gr. hljómar svo, með leyfi forseta:

„Hver, sem opinberlega smánar erlenda þjóð eða erlent ríki, æðsta ráðamann, þjóðhöfðingja þess, fána þess eða annað viðurkennt þjóðarmerki, fána Sameinuðu þjóðanna eða fána Evrópuráðs, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum. Nú eru sakir miklar og varðar brot þá fangelsi allt að 6 árum.

Sömu refsingu skal hver sá sæta, sem smánar opinberlega eða hefur annars í frammi skammaryrði, aðrar móðganir í orðum eða athöfnum, eða ærumeiðandi aðdróttanir við aðra starfsmenn erlends ríkis, sem staddir eru hér á landi.

Sömu refsingu skal hver sá sæta sem ógnar eða beitir valdi gagnvart sendierindreka erlends ríkis hér á landi eða ræðst inn á eða veldur skemmdum á sendiráðssvæði eða hótar slíku.“

Þessa grein vil ég sem sagt burt úr almennum hegningarlögum.

Þetta frumvarp hefur áður verið lagt fram, fyrst á 145. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga. Það var endurflutt á 146. löggjafarþingi og þá með breyttri og ítarlegri greinargerð en það er nú endurflutt óbreytt frá 146. þingi.

Ástæða þess að ég flyt frumvarpið er að á undanförnum árum hefur verið talsvert þrengt að tjáningarfrelsi víða um heim. Frelsi blaðamanna hefur verið skert og stjórnvöld í einstökum ríkjum hafa reynt að uppræta gagnrýna umræðu, jafnvel yfir landamæri. Það muna kannski einhverjir eftir máli í þessu samhengi þar sem þýsk stjórnvöld létu undan þrýstingi stjórnar Tyrklands og heimiluðu málaferli gegn skemmtikrafti sem farið hafði óvirðulegum orðum um Erdogan, forseta Tyrklands. Sú ákvörðun er almennt talin hafa verið mikill álitshnekkir fyrir þýsku ríkisstjórnina og ótíðindi fyrir tjáningarfrelsið.

Ákvörðun þýsku ríkisstjórnarinnar byggðist á lögum sem gilda þar í landi og fela í sér refsingar við því að smána erlenda þjóðhöfðingja eða ríki. Í kjölfarið spratt upp umræða í ýmsum Evrópulöndum um réttmæti slíkra laga. Það var í rauninni út frá því m.a. sem hugmynd mín að þessu þingmáli kviknaði, alla vega fengu einhverjir þingmenn tölvupóst þar sem vakin var athygli á svona lagagreinum í lögum annarra ríkja. Þá var verið að vinna úttekt á vegum Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, í samvinnu við International Press Institute í Vínarborg, á löggjöf um sérvernd erlendra þjóðhöfðingja. Það er því ekki hægt að segja að hér sé bara um eitthvert íslenskt sérviskumál að ræða heldur hafa alþjóðleg samtök, sem eru að kortleggja og fylgjast með umræðu sem varðar tjáningarfrelsi, vakið athygli á þessu víða um heim.

Mig langar að nefna að það er ekki einungis vegna tjáningarfrelsismála sem ég tel þetta mikilvægt mál og legg það fram. Ekki einungis vegna þess að ég tel að fólk eigi að geta talað frjálst, jafnvel svolítið illa um erlenda þjóðhöfðingja ef því býður svo við að horfa, heldur hreinlega vegna þess að mér finnst að þjóðhöfðingjar eigi að sæta almennri löggjöf eins og allur annar almenningur. Það eru lög sem taka á því ef menn meiða æru fólks. Mér finnst að slík lög eigi að gilda um erlenda þjóðhöfðingja líka.

Það eru strangari viðurlög við því að móðga erlenda þjóðhöfðingja, þ.e. allt að sex ára fangelsi ef sakir eru miklar eins og kom fram í lagagreininni sem ég las upp áðan.

Þetta er í mínum huga annars vegar tjáningarfrelsismál en hins vegar líka almennt réttlætismál þar sem allir eru undir sömu reglur settir þegar kemur að því hvernig má tala um þá.

Árið 2002 felldi Mannréttindadómstóll Evrópu dóm í máli franska dagblaðsins Le Monde, þar sem úrskurðað var að sérstök vernd þjóðhöfðingja væri ónauðsynleg í lýðræðisþjóðfélagi. Í framhaldi af dómnum lýstu íslenskir lögspekingar efasemdum um að unnt væri að dæma eftir 95. gr. hegningarlaga í ljósi 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Eins og ég sagði áðan eru afar hörð viðurlög falin í 95. gr. almennra hegningarlaga við því að smána erlend ríki, þjóðhöfðingja eða þjóðartákn á borð við fána. Þá er tiltekið að óheimilt sé að ráðast gegn sendierindrekum með ofbeldi eða valda eignaspjöllum á sendiráðum eða lóðum þeirra.

Lagaákvæðum sem standa eiga vörð um sóma erlendra þjóðhöfðingja hefur sjaldan verið beitt hér á landi og enn sjaldnar fallið dómar á grunni þeirra. Þau fáu tilvik hafa þó síst verið landi og þjóð til sóma. Þannig hlaut rithöfundurinn Þórbergur Þórðarson dóm fyrir að kalla Adolf Hitler blóðhund og skáldið Steinn Steinarr fyrir að smána hakakrossfána þýska nasistaflokksins. Óhætt er að segja að sagan hafi farið mjúkum höndum um þau afbrot.

Áður en ég vík að seinni hluta lagagreinarinnar, meðan ég er enn að tala um það sem snýr að þjóðhöfðingjum og þjóðfánum, langar mig að nefna annað dæmi sem er nýlegt og sýnir að þetta er í rauninni lifandi lagabókstafur. Árið 2012 voru fjórir einstaklingar, sem tóku þátt í mótmælum fyrir utan rússneska sendiráðið vegna meðferðar rússneskra yfirvalda á meðlimum hljómsveitarinnar Pussy Riot, kærðir samkvæmt þessu lagaákvæði. Það var svo seint á síðasta ári sem þeir einstaklingar fengu tilkynningu um að rannsókn málsins væri hætt. Það er því alveg verið að nota þetta.

Þá komum við að seinni hluta lagagreinarinnar, sem snýr sérstaklega að eignaspjöllum á sendiráðum. Þar er um að ræða klausu sem bætt var við lögin árið 2002. Þann sama vetur höfðu þrír ungir menn verið kærðir og hlutu síðar dóm á grundvelli 95. gr. hegningarlaga fyrir að hafa kastað bensínsprengju að bandaríska sendiráðinu. Mér fannst á sínum tíma mjög furðulegt að dæma samkvæmt þeirri grein fyrir það. Í mínum huga er það að kasta bensínsprengju ekki móðgun við þjóðhöfðingja eða fána ríkis, heldur einfaldlega allt annars konar lögbrot sem ætti að kæra fyrir á allt öðrum forsendum. Tilraun til íkveikju eða að stofna lífi og limum fólks í hættu. Ég velti fyrir mér að sú ákvörðun að kæra verknaðinn á grunni ákvæðisins um móðgun í garð erlendra ríkja og þjóðhöfðingja hafi leitt til þess að þessari klausu var bætt við almennu hegningarlögin. Líkt og ég tel fyrri hluta lagagreinarinnar algerlega óþarfan, vegna þess að við höfum almenn lög sem snúa að meiðyrðum í garð fólks, þá höfum við önnur ákvæði í lögum sem taka á skemmdarverkum og íkveikjum. Ég tel því að þessi lagagrein sé með öllu óþörf og eiginlega verra en það, sé hreinlega slæm, vegna þess að hún takmarkar tjáningarfrelsið með algerlega óþörfum hætti. Það er þess vegna sem við flutningsmenn frumvarpsins leggjum það fram.

Allt er þá þrennt er. Við leggjum málið fram í þriðja skipti. Ég vona að við getum klárað það núna á þessu þingi. Með þeim orðum legg ég til að málinu verði vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.