148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja.

214. mál
[19:44]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég er í öllum skilningi fullkomlega sammála þessu máli og markmiðum þess, en þó hnaut ég um eitt orð sem vantar skilgreiningu á í greinargerð frumvarpsins, það er orðið „kjarnakleyfra“. Flutningur er bannaður á þessu eða losun kjarnakleyfra efna. Ég get svo sem verið sammála því að banna losun á þeim, en vandinn er að mér þykir vanta skilgreiningu á þessu orði vegna þess að ég býst við að hér sé átt við það sem á ensku væri kallað, með leyfi forseta, „fissile material“, þ.e. efni sem geta viðhaldið kjarnorkuniðurbrotsferli af sjálfsdáðum sé nægilegt magn fyrir hendi.

En ótti minn er sá að annars vegar gæti þetta verið skilið þannig að þetta gæti verið um hvaða efni sem er sem væri mögulegt að kljúfa kjarnann á. Sem væri þá hér um bil öll efni, þar með talið við sjálf, sem ég býst ekki við að sé markmiðið. En einnig og það er tilfellið að ég er bara ekki nægilega kunnugur svona kjarneðlisfræði til þess að vera dómbær á það. En það gæti verið að hér sé líka óvart verið að banna einhver af þeim efnum sem verða til í kjarnaofninum sem í eru notuð þessar geislavirku samsætur sem eru notaðar gjarnan í læknisfræðilegum tilgangi eða í öðrum rannsóknartilgangi.

Nú veit ég að til er töluverð löggjöf á Íslandi um meðferð geislavirkra efna, ég þekki ekki öll smáatriði hennar, en mig langar bara til að vera viss um það að hér sé ekki verið fyrir handvömm að banna öll efni eða í það minnsta ekki öll efni sem gætu verið nýtt í læknisfræðilegum tilgangi.