148. löggjafarþing — 31. fundur,  28. feb. 2018.

störf þingsins.

[15:23]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Eins og komið hefur fram hélt utanríkismálanefnd góðan fund í morgun þar sem mikill samhljómur var meðal nefndarmanna um að alvarlegar brotalamir væru í kerfinu sem bregðast þyrfti við.

Ég er mjög ánægð með viðbrögð bæði forsætisráðherra og samgönguráðherra sem boða hér breytingar og bót á verklagi sem við ætlum ekki að sætta okkur við af því að við munum ekki og ætlum ekki að sætta okkur við að íslensk stjórnvöld komi með einhverjum hætti að stríðsrekstri gegn borgurum. Það er mikilvægt að gera breytingar á framkvæmd og verklagi, það heyrir undir samgönguráðuneytið, og fá síðan nefndina til að fylgja því eftir. Ráðherra var með skýrar hugmyndir um að herða verklagið og endurskoða það með þeim hætti að við gætum uppfyllt betur þær alþjóðaskuldbindingar sem við höfum gengist undir og er sérstaða okkar.

Framlag okkar í heiminum og sérstaða okkar er m.a. friður, mannréttindi og jafnrétti. Þetta ætlum við ekki að sætta okkur við. Það er mikilvægt að vinnunni verði hraðað og eins þeirri endurskoðun sem hafin er hjá samgönguráðuneytinu. Ég treysti því að við í þinginu fylgjum því vel eftir og að samgöngunefnd taki við þeim breytingum sem gerðar verða þar á og fylgist vel með þeim.

Við fordæmum þessi stríðsátök. En ég tek undir með því sem fram kom á nefndarfundinum að utanríkisráðuneytið verður að koma betur að málum. Tillögur komu frá embættismönnum í því ráðuneyti um að reglubinda þyrfti samráðið þar, en utanríkisráðuneytið er auðvitað með miklu meiri innsýn í alþjóðamál en samgönguráðuneytið. Þarna þurfum við að láta stjórnvöld vinna betur saman af því að þetta ætlum við ekki að sætta okkur við.