148. löggjafarþing — 31. fundur,  28. feb. 2018.

mótun eigendastefnu ríkisins fyrir bújarðir.

[16:18]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka öllum þeim sem hafa tekið þátt í þessari umræðu. Hún hefur verið afar gagnleg, fróðleg og upplýsandi. Það er ánægjulegt að sjá að við erum nokkuð sammála um að hér sé orðið mikið ákall um að mörkuð verði stefna um bújarðir í eigu ríkisins.

Það er alveg rétt sem fram hefur komið, umhverfi landbúnaðarins hefur breyst alveg gríðarlega mikið á undanförnum árum. Bændur eru í fjölbreyttari störfum, í fjölbreyttari vinnu. Það er magnað að sjá allt það starf sem bændur hafa unnið í því að græða upp landið. Ríkið getur komið sterkt þar inn, það getur stýrt vinnunni í því og hjálpað til við það, og bændur hafa sannarlega sýnt að þeir eru tilbúnir í þá vinnu.

Svo má líka velta fyrir sér hvernig við ætlum að endurnýja þessa starfsstétt. Við vitum að bændastéttin er orðin ansi fullorðin og það er orðið þungt fyrir yngri bændur að taka við búum eða komast inn í búskap. Er hægt að búa til einhverja umgjörð í kringum það á ríksjörðunum, gera eitthvað í kringum þær þannig að það væri fýsilegur kostur fyrir unga fólkið sem vill taka við bújörðunum? Hér er gríðarlegur fjöldi orðinn af ungu, vel menntuðu, færu fólki sem er tilbúið að taka við landinu, rækta það áfram og skila því í betra ástandi en við tókum við því. Það er það sem góður bóndi gerir. Ég þekki ekki aðra bændur en þá sem hafa það að markmiði að laga allt í kringum sig.

Ég fagna orðum fjármálaráðherra um að hann ætli núna að fara að leggja áherslu á að svara fólki, að fólk fari að fá svör sem hefur verið í óvissu. Það er mjög mikilvægt að einstaklingarnir og fjölskyldurnar fái að vita um það.

Eins og ég segi ætla ég að gera orð konunnar að mínum: Ég held að okkur sé bara ekkert að landbúnaði og ættum að drífa okkur í þetta. [Hlátur í þingsal.]