148. löggjafarþing — 31. fundur,  28. feb. 2018.

gerð áætlunar um stafræna endurgerð íslensks prentmáls.

219. mál
[17:52]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé fyrir hans ágætu framsögu. Hann er ekki lengi að komast í æfingu, það er ljóst. Það veit á gott þegar líður að vorþingi.

Ég er einn þeirra sem eru sannfærðir um að það sem gerir okkur Íslendinga að þjóð sé sá menningararfur sem við eigum í bókunum, í sögunum okkar og í náttúrunni okkar. Ég held að það sé skylda okkar að standa vörð um þann arf. Ég er þess fullviss að ef við glötum honum þá er það fyrsta skrefið í átt að því að glata fullveldi okkar og sjálfstæði; við ætlum einmitt að halda upp á 100 ára afmæli fullveldis síðar á þessu ári.

Ég er hins vegar hugsi yfir þeirri nálgun eða þeirri hugmyndafræði sem liggur að baki þessari þingsályktunartillögu. Ég þarf að biðja hv. þingmann og 1. flutningsmann að hjálpa mér aðeins að skilja þá hugmyndafræði sem býr að baki. Hér segir, með leyfi forseta:

„Markmið þessarar þingsályktunartillögu er að stuðla að því að gerð verði rækileg áætlun um stafvæðingu íslensks prentmáls, einkum bóka, sem hefur náð þeim aldri að það er ekki lengur söluvara á markaði …“

Þetta var það sem ég hjó strax eftir þegar ég byrjaði að lesa. Bíðið nú við. Hvað er ekki söluvara? Hver tekur ákvörðun um hvað telst söluvara og hvað ekki? Ég er sannfærður um að það eru a.m.k. ekki embættismenn (Forseti hringir.) sem gera það. Ég minni á að enn þann dag í dag eru fornsögurnar okkar, Íslendingasögurnar, söluvara. Svo er ég með meira á eftir.