148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

lög um opinberar eftirlitsreglur.

[11:02]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Mig langar að eiga orðastað við hæstv. forsætisráðherra um mat á áhrifum lagasetningar og vandaða lagasetningu. Nú er það þannig að ríkisstjórnin hefur nýlega, á síðasta ári, sett sér verklagsreglur og lagt fram ýmiss konar verkferla sem eiga að þjóna þessum tilgangi. Er rétt að fagna því. Það sem ég vildi eiga orðastað við hæstv. ráðherrann um er mat á áhrifum.

Í frumvörpum er yfirleitt gerð nokkuð góð grein fyrir mati á áhrifum á ríkissjóð en minna fer fyrir raunverulegu mati á áhrifum lagasetningar á atvinnulífið og þá sem eiga að fara að nýjum reglum eða breyttum. Í þessu sambandi hef ég sérstakan áhuga á því að við erum með löggjöf, eða lög, sem heita lög um opinberar eftirlitsreglur, og eru frá árinu 1999 og ítarlega reglugerð sem sett er á grundvelli þeirra laga. Mér sýnist að framkvæmd þessa mats á áhrifum eftirlitsreglna og hvaða leiðir sé best að fara séu ekki, eigum við orða það þannig, framkvæmdar sem skyldi

Mig langar til að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hann hyggist beita sér sérstaklega fyrir því að þetta mat verði framkvæmt með markvissari hætti. Og sérstaklega hvort ráðherra hyggist beita sér fyrir því að fylgja betur eftir lögum um opinberar eftirlitsreglur og reglugerðinni sem fylgir þar.