148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

framlagning stjórnarmála.

[11:38]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er alþjóðlegur dagur hróss og ég vil byrja á því að hrósa stjórnarandstöðunni fyrir að veita ríkisstjórninni málefnalegt aðhald. Ekki veitir af. Við fengum kannski ekki mikið hrós í þeirri umræðu sem hefur verið hér um fundarstjórn forseta, en ég vil sem formaður atvinnuveganefndar gera athugasemdir við það sem hv. þm. Albertína Elíasdóttir nefndi hér, að það hafi verið léttvæg mál í atvinnuveganefnd. Atvinnuveganefnd hefur verið akkúrat að fjalla um stór og mikil mál sem eru á dagskrá og verða á dagskrá, undirbúa sig undir komu mála eins og lagaumgjarðar um fiskeldi. Við höfum verið að undirbúa okkur undir umræðu um veiðigjöld og endurskoðun þeirra, tekið inn fjölda aðila. Þetta eru ekki léttvæg mál. Við erum að fjalla um flutningskerfi raforku og fleiri mál og við höfum notað tímann vel til að fara yfir stór og mikil mál. Við megum ekki tala niður okkar eigin nefndir og það starf (Forseti hringir.) sem fer fram í nefndunum. Við verðum aðeins að bera virðingu fyrir okkur og því starfi sem hér fer fram.