148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[13:09]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Hann vísaði í hefðina og spurði hvort það skipti máli hvort hún væri ný af nálinni eða gömul og rótgróin. Í mínum huga er þetta fyrst og fremst hefð trúarbragða til þúsunda ára og mér finnst mikill munur þar á hvort það er söfnuður sem stofnaður verður í næstu viku í Reykjavík eða hvort þetta er gyðingasöfnuðurinn, sem dæmi, sem er mörg þúsund ára gamall.

Síðan spurði hv. þingmaður hvort það skipti einhverju máli hvort refsingin væri sex ár eða eitt ár. Ég segi fyrir mitt leyti og hef sagt, sagði það í ræðunni, að mér finnst ekki að þetta eigi að vera refsivert. Það er hins vegar hægt að setja ýmsar reglur til þess að koma í veg fyrir að þetta sé gert í heimahúsi o.s.frv., ég er fylgjandi því.

Síðan nefndi hv. þingmaður hvort ég teldi hefðina skipta máli. Ég svaraði því. En það er líka rétt að flutningsmaður svari þessari síðustu spurningu sem þingmaður beindi til mín, þannig að hann gæti þá bara áréttað hana.