148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

kjör öryrkja.

[15:05]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á mjög mikilvægu efni. Það er ekki rétt sem sagt er að ekkert hafi verið gert fyrir öryrkja í fjárlögum fyrir árið 2018. Þar skiluðu sér inn ákveðnar kjarabætur til öryrkja þannig að nú er staðan sú að 29% öryrkja fóru upp í 300.000 kr. greiðslur um áramótin og var bætt í við meðferð fjárlagafrumvarpsins samkvæmt tillögu frá hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra, bara svo við höldum staðreyndum til haga.

Síðan liggur fyrir að hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra hefur sömuleiðis átt samtöl við forsvarsmenn Öryrkjabandalagsins og Þroskahjálpar um viðræðuáætlun því að þegar þeirri vinnu lauk sem allir fulltrúar stjórnmálaflokkanna áttu sæti í á sínum tíma, fulltrúar þessara samtaka, fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda, náðist ekki samstaða um þær kerfisbreytingar sem þar voru undir í málefnum örorkulífeyrisþega. Hins vegar náðist ákveðin samstaða um kerfisbreytingar á almannatryggingum hvað varðar aldraða.

Það liggur hins vegar fyrir, af því að hv. þingmaður nefnir hér þá sem höllustum fæti standa, að eldri borgarar hafa komið á fund minn og óskað eftir því að metnar verði þær breytingar sem þá voru gerðar og hvernig þær hafa birst þeim sem höllustum fæti standa í hópi eldri borgara. Ég held að það sé mjög mikilvægt í ljósi þessara breytinga, sem áttu að skila sér í auknum kjarabótum til eldri borgara, að við förum yfir hvort þær hafi skilað sér. En um leið hef ég lagt á það mikla áherslu, varðandi þær viðræður sem nú munu hefjast við forsvarsmenn öryrkja um kerfisbreytingar og kjarabætur til handa örorkulífeyrisþegum, að sú vinna verði unnin eins hratt og mögulegt er. Þar tel ég mikilvægt að við horfum til þess að stefnt sé á mannsæmandi kjör en líka til aukinnar samfélagsþátttöku og sömuleiðis hvað við getum gert sem samfélag til þess að grípa fyrr inn í þegar kemur að fjölgun örorkulífeyrisþega.

Þetta eru stór verkefni sem ég held þó að sé mikilvægt (Forseti hringir.) að við vinnum hratt.